Fái frið til þess að finna lausn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu sett sig inn í þetta mál og fylgist með. En forstjóri fyrirtækisins sem um ræðir að hann og fyrirtækið sé að vinna með heimamönnum á hverjum stað að ná niðurstöðu sem verði ásættanleg fyrir alla, að minnsta kosti sem flesta, og tryggja að það verði enginn atvinnumissir sem leiði af þessu. Við vonum að sjálfsögðu að sem best gangi í þeirri vinnu og hún skili sem mestum árangri.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag varðandi þau áform útgerðarfyrirtækisins Vísis að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur en starfsstöðvar þess á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík leggjast þar með af. Steingrímur spurði ráðherrann hvernig ríkisstjórnin ætlaði að beita sér í málinu og minnti hann á að tvö af byggðarlögunum væru í hans kjördæmi.

„Hvað varðar framhaldið þá er þetta kannski áminning um mikilvægi þess að hér sé komið á fiskveiðistjórnunarkerfi og gjaldtöku vegna fiskveiða sem hvetur ekki til samþjöppunar í greininni og neyðir fyrirtæki til þess að ná einhvers konar hámarkshagræðingu sem getur bitnað á byggðunum allt í kringum landið. Það var einmitt gallinn á þeim breytingum sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili, svo ekki sé minnst á þær breytingar sem reynt var að innleiða, að þær ýttu mjög undir samþjöppun í greininni, veiktu stöðu minni fyrirtækja og þar með líka minni byggðalaga,“ sagði Sigmundur.

Stjórnvöld hlytu annars að gefa útgerðafyrirtækinu Vísi og viðsemjendum þess frið til þess að finna lausn á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert