„Hann ætlar að láta mig borga“

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir segir að nálgunarbann sé fullkomlega gagnlaust þegar lögreglan bregst ekki við því þegar það er brotið. Ásdís sagði sögu sína í Kastljósþætti kvöldsins en hún hefur ítrekað kært hótanir og brot á nálgunarbanni sem var sett á fyrrverandi sambýlismann hennar í haust.

Fram kom í þættinum, að Ásdís hafi flúið ásamt börnum sínum til Þórshafnar á Langanesi af ótta við manninn. Lögreglan rannsakar nú fjórar alvarlegar líkamsárásir hans gegn Ásdísi.

Þá kom fram, að samfélagið á Þórshöfn hafi ekki farið varhluta af ónæði mannsins sem hafi m.a. staðið í hótunum við Ólaf Steinarsson, sveitarstjóra Langanesbyggðar, sem segist undrast mjög viðbragðaleysi lögreglunnar sem beri því við að ekki sé hægt að stöðva manninn á meðan hann beiti ekki líkamlegu ofbeldi.

Beitti alvarlegu ofbeldi sem börn urðu vitni að

Ásdís greinir frá því í þættinum að hún hafi kynnst manninum sumarið 2011 og í byrjun september sama árs flytur hún til Reykjavíkur þegar þau hefja samband og maðurinn er fljótlega kominn inn á heimili hennar. Í desember 2011 beitir maðurinn Ásdísi ofbeldi í fyrsta sinn. Hún verður aftur fyrir líkamsárás í febrúar 2012, en hún sagði að sú árás hefði verið mjög alvarleg. „Ég gat ekki mætt í vinnuna í mánuð á eftir,“ sagði hún í viðtalinu og bætti við að hún hefði hlotið alvarlega áverka í andliti.

Í september 2012 beitir maðurinn hana aftur ofbeldi í tvö skipti. Hún segir að í öll skiptin sem maðurinn beitti hana ofbeldi hafi ungir drengir hennar orði vitni að árásunum. Ásdís segir að drengirnir hafi þurft á sálfræðiaðstoð að halda vegna þess sem þeir sáu.

Aðspurð segist Ásdís hafa aðeins einu sinni kært manninn til lögreglu. Hún dró kæruna hins vegar til baka sl. haust þar sem maðurinn lofaði bót og betrun. „Ég var bara skíthrædd við hann, það er bara þannig. Því ég vissi og veit hvernig hann er. Ég tók ekki þennan slag að loka alveg á hann af því að ég vissi alveg - og það var bara mín reynsla - að hann sat bara fyrir mér. Ég lenti í allskonar atvikum sem ég hef ekkert verið að tilkynna einum eða neinum. Þar sem ég var dauðhrædd um líf mitt,“ segir Ásdís.

Orðið fyrir margskonar áreiti

Í Kastljósþættinum kom fram, að hún hefði orðið fyrir margskonar áreiti frá hendi mannsins eftir að hún kærði hann. Hún reyndi að slíta öll samskipti við hann en því fylgdu hótanir, ógnanir og áreiti.

Þrátt fyrir að flestir hennar nánustu búi í og við höfuðborgarsvæðið tók hún þá ákvörðun að fara með yngstu börnin til Þórshafnar á Langanesi til að komast frá manninum, en það gerði hún sl. haust. Hún starfar þar sem kennari

„Ég held að ég hafi verið send hingað því þetta samfélag hefur tekið mér alveg frábærlega og staðið þétt við bakið á mér,“ sagði hún.

Í byrjun nóvember hætti hún alfarið að svara manninum. „Þá náttúrulega skall á mig af fullum þunga,“ segir Ásdís. Maðurinn hótaði m.a. að birta á netinu myndir og myndbönd af Ásdísi sem hann sagðist vera með undir höndum. Ásdís segir að þá hafi maðurinn jafnframt byrjað að áreita fjölskyldu Ásdísar, samstarfsmenn hennar og aðra íbúa. Hann sendi þeim m.a. ýmis skjöl sem hann hafði komist yfir á heimili Ásdísar. 

Ólafur Steinarsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að tilgangurinn með þessu hafi verið að sverta mannorð Ásdísar. Ólafur ákvað því í samráði við skólanefnd, skólastjóra og foreldrafélag að senda út bréf til bæjarbúa til að útskýra málið og vara fólk við manninum. Í bréfinu er m.a. tekið fram að maðurinn hafi sent trúnaðargögn og verið með persónuníð gagnvart Ásdísi. Var málið því tilkynnt til lögreglu. Eftir það bárust fleiri tölvupóstar til foreldrafélags skólans sem einnig hafi verið tilkynnt til lögreglu.

Eftir að hafa fundið fyrir stuðningi bæjarbúa vissi Ásdís að það yrði ekki aftur snúið og „ég vissi að ég yrði að taka þennan slag,“ sagði hún.

Hefur ítrekað brotið nálgunarbann

Fram kom að í byrjun desember hafi Héraðsdómur Reykjaness samþykkt beiðni lögreglu um nálgunarbann enda lægi fyrir að lögreglan teldi Ásdísi ógnað af manninum. Einnig að ofbeldisbrot hans hefðu verið og væru til rannsóknar.

Þá kom fram að maðurinn hafi hringt yfir þúsund sinnum í síma Ásdísar á tæplega tveggja mánaða tímabili sl. haust. Auk þess hafi hann sent henni mikinn fjölda smáskilaboða og tölvupósta. Einnig er tekið fram í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi verið kærður vegna dreifingar á persónulegum gögnum Ásdísar.

Aðspurð segir Ásdís að nálgunarbannið hafi dugað lítið sem ekkert. Í nálgunarbanninu, sem var birt manninum 10. desember sl., segir að hann megi ekki hafa samband við Ásdísi á neinn hátt, ekki koma nálægt heimili hennar, ekki hringja, senda skilaboð eða tölvupósta.

Ásdís segir að maðurinn hafi þrátt fyrir bannið sent henni tæplega 700 smáskilaboð þar sem henni er hótað. Þá hafi hann hringt í hana ótal sinnum, sent henni tölvupósta og reynt að nálgast hana í gegnum Facebook. 

„Þannig að ég gæti trúað að þetta væru þúsund skipti sem hann er búinn að brjóta þetta nálgunarbann frá 10. desember,“ sagði Ásdís.

Hún bætti við að maðurinn hafi hótað því að vera á leiðinni til hennar „ég mun aldrei fá frið og hann ætlar að láta mig borga. Hann hefur sagt: „Þú munt deyja.“,“ segir Ásdís í þættinum.

Furðar sig á úrræðaleysi lögreglu

Ásdís furðar sig á viðbrögðum lögreglu í þessu máli. „Á ekki réttarkerfið að vera þannig að það taki á svona málum þegar viðkomandi er kominn með nálgunarbann á sig og hefur sannarlega sýnt fram á að hann er hættulegur,“ spyr Ásdís í lok þáttarins.

Þá er tekið fram að í dag sé innan við mánuður þar til nálgunarbannið rennur út. Þá segir að ítrekaðar kærur Ásdísar á brotum á nálgunarbanninu og hótunum hafi enn ekki leitt til þess að lögregla grípi til aðgerða gegn manninum. Þá stendur rannsókn enn yfir ofbeldisbrotunum.

Þá segir Ásdís að það sé hennar reynsla að litla hjálp sé að fá hjá lögreglu í málum eins og hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert