Rúnar Rúnarsson hefur tökur á nýrri kvikmynd

Rúnar Rúnarsson - Tökur hefjast á nýrri mynd á Vestfjörðum …
Rúnar Rúnarsson - Tökur hefjast á nýrri mynd á Vestfjörðum í júlí. Myndin ber vinnuheitið Þrestir. Mikkel Jersin - Nimbus Film - Nimbus Iceland

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri og handritshöfundur, mun hefja tökur á nýrri mynd sinni, sem ber vinnuheitið Þrestir, á Vestfjörðum 14. júlí næstkomandi. Rúnar naut hylli á Cannes kvikmyndahátíðinni fyrir mynd sína Eldfjall sem kom út 2011.

„Þetta er íslensk mynd og gerist í íslenskum samtímaraunveruleika. Tökur fara mestmegnis fram á Norðurfjörðum fyrir vestan, Flateyri, Bolungarvík, Suðureyri og Ísafirði og þeim radíus. Sögusvið myndarinnar er ónefndur bær fyrir vestan. “segir Rúnar í spjalli við mbl.is

„Vestfirðir hafa uppá mikið að bjóða og við þykjumst vera að taka allt það besta og sjóða það saman í dýrindis kássu.“

Vill vinna með sama fólkinu

Atli Óskar Fjalarsson fer með aðalhlutverk í myndinni, sem lék einnig í verðlaunaðri stuttmynd Rúnars, Smáfuglum. Föður hans leikur Ingvar E. Sigurðsson. 

„Á einn eða annan hátt hef ég alltaf reynt að vinna með sama fólkinu, og hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta byggt upp samstarf við samstarfsfólk mitt jafnt hér heima og erlendis,“ segir Rúnar. „Ég lærði í danska kvikmyndaskólanum og þaðan kemur einnig fólk með mér inn í verkefnið.

Ég er með sama kvikmyndatökumann, Soffíu Olson, og sama klippara, Jacob Schulsinger, sem ég kynntist í skólanum. Öll verkefni sem við gátum valið okkur í saman unnum við í sameiningu og samstarfið hefur haldist.“

Þroskasögur og hugleiðingar 

Þrestir er þroskasaga aðalpersónunnar, Ara, sem er 16 ára, en einnig feðgasaga hans og föður hans,“ segir Rúnar. „Svo er líka almennt unglingabrek og ástir og örlög ýmissa persóna tvinnast saman. Þetta er þannig séð einnar persónu saga að því leyti að Ari er í öllum senum myndarinnar.“

Aðspurður um hvort þættir í sögu Ara og söguþræði í Eldfjalls kallist á segir Rúnar ýmislegt koma til.

„Eldfjall var líka einnar persónu saga. Maðurinn, sem Theodór lék svo vel, er í öllum senum og hliðarsögur og örlög annarra eru til þess að spegla aðalpersónuna. Að efnistökum var Eldfjall líka þroskasaga, ef svo skyldi segja, nema kannski óvenjulegri með það að maður kominn nokkuð til ára sinna sé að ganga í gegnum persónuþroska.

Svo eru báðar myndir almennar hugleiðingar um ástina og karlmennsku. Pabbi Ara er meira af gamla skólanum, svipað og maðurinn í Eldfjalli, og ekki of lunkinn að sýna tilfinningar sínar.“

Byrjuðu í verkfalli og sneru ekki aftur

„Ég get þakkað kennarastéttinni og kjarabaráttu hennar að ég byrjaði í kvikmyndagerð,“ segir Rúnar. „Þegar ég var í fyrsta bekk í framhaldsskóla 1994 var langt kennaraverkfall og þá gerðum við félagi minn, Grímur Hákonarson, sem er líka með mynd í deiglunni, stuttmynd saman sem bar heitið Klósettmenning.“

Rúnar segir frá því hvernig þeir félagar, grobbnir með afrakstur sinn sextán og sautján ára gamlir, sendu mynd sína, Klósettmenningu, á hátíðir um allan heim og slysuðust á hátíðina Nordisk Panorama í Noregi.

„Við náðum að koma okkur þangað með hjálp góðra manna og kvenna og þar opnaðist þessi heimur fyrir okkur. Okkur tókst að kynnast forminu sem stuttmyndin er og það varð eiginlega ekki aftur snúið. “

Lélegur í öllu hinu

Fram að verkfallinu hafði Rúnar fengist við ýmislegt.

„Ég var eitthvað að plötusnúðast, hafði aðeins fengist við að skrifa leikri, semja ljóð, mála og taka ljósmyndir, en ég var lélegur í þessu öllu. Ég fann mig aldrei fullkomlega en hafði alltaf mikla sköpunarþörf sem ég vissi ekki hvað ég átti að gera við.

Það er fyrst þegar ég fer að vinna með þennan miðil að öll þessi element koma saman og mér leið eins og stakkurinn væri sniðinn á mig. Einsog af klæðskera.“

Myndir Rúnars hafa unnið til fjölda verðlauna og samanlagt hafa verk hans sankað að sér meira en hundrað verðlaunum á hátíðum um allan heim, þ.á.m. var stuttmynd hans Síðasti bærinn tilnefnd til óskarsverðlauna árið 2006. Þrestir er önnur myndin sem hann tekur sér fyrir hendur í fullri lengd.

Mikil törn framundan

Ekki er gott að segja hvað Rúnar tekur sér næst fyrir hendur enda gífurleg törn framundan. „Ég sé veiðisumarið 2015 fyrir mér í hyllingum.

Ég reikna með að vera á lokametrunum við að vinna myndina í apríl og svo tekur við kynningastarf þar sem maður þarf að þvælast um allan heim með þessu. Það verður smá lognmolla yfir sumartímann á næsta ári og þá ætla ég að vera með fjölskyldunni og veiða mikið. Láta líða úr mér í íslenskri náttúru.“

Stefnt er að því að sýna myndina í kvikmyndahúsum seinni hluta maí 2015.

Myndin er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Danska kvikmyndasjóðnum og Norrænum kvikmynda- og sjónvarpssjóð og er framleidd af Nimbus Ísland í samvinnu við Pegasus, Nimbus Film og MP Films.

Bolungarvík - Sögusvið myndarinnar er ónefndur bær fyrir vestan.
Bolungarvík - Sögusvið myndarinnar er ónefndur bær fyrir vestan. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert