Ekki flokkað sem brunagildra

Svona skiptist reiturinn Skeifan 11 niður og má sjá hversu …
Svona skiptist reiturinn Skeifan 11 niður og má sjá hversu mikið var í húfi þegar eldur kviknaði á reitnum í gærkvöldi. Grafík/Elín Esther

„Það voru engar útistandandi kröfur frá okkur á húsið. Þetta er þó gamalt hús og það eru alls kyns mögulegir veikleikar í byggingum sem ómögulegt er að sjá við hefðbundna eldvarnarskoðun,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, en hann segir byggingar í Skeifunni 11 ekki hafa verið flokkaðar sem sérstakar brunagildrur.

Hann segir öryggi fólks ávallt vera haft í forgangi við öryggisskoðanir og ítrekar að brunaviðvörunarkerfi hafi reynst vel og viðbragðstími því verið stuttur.

„Viðvörunarkerfið fór strax í gang, Securitas vaktar það og þeir voru komnir yfir götuna á u.þ.b. einni mínútu, opnuðu inn, fundu reykjarlykt og hringdu umsvifalaust á slökkvilið,“ segir Bjarni.

Litlir veikleikar geta haft mikil áhrif

Hann bendir á að veikleikar sem ekki sjáist við hefðbundna skoðun geti haft mikil áhrif þegar til eldsvoða komi.

„Það þurfa ekki að vera nema einstaka göt í lögnum hér og rifur þar sem enginn spáir í, en þegar 800 til 1.000 gráðu hiti myndast fer það bara í gegnum allar smugur. Þetta er alveg eins og með vatn, ef það er smuga þá lekur það í gegn.“

Bjarni segir mikilvægt að húseigendur leggi vinnu og fjármuni í að hafa eldvarnarmál í lagi, enda borgi fjárfesting í öryggi sig alltaf. Hann nefnir verslunina Víði sem gott fordæmi, en þar urðu litlar sem engar skemmdir og var verslunin opnuð á réttum tíma í morgun.

„Á meðan algjör bruni varð hinum megin var bara ilmur af eplum og banönum í Víði. Það er auðvitað frábært að sjá þegar vandað er til verka og hlutirnir eru gerðir rétt, eins og virðist vera raunin þar,“ segir Bjarni.

Stórbruni á síðustu öld

Árið 1975 varð stórbruni í húsnæðinu í Skeifunni 11, en þá brann teppaverslunin Persía og varð einnig mikið tjón hjá fyrirtækinu Stillingu. Bjarni segir húsnæði ekki fara á neinn sérstakan áhættulista þó að brunar hafi orðið þar áður.

„Það er mikið af eldra atvinnuhúsnæði á svæðinu og við sinnum því með hefðbundnu eldvarnareftirliti. Öryggi virðist hins vegar ekki hafa verið sérstaklega ábótavant þarna frekar en í öðrum svipuðum húsum frá sama tíma,“ segir Bjarni.

Aðgengi að húsinu var nokkuð gott að sögn Bjarna, enda götur og bílastæði allan hringinn. Hann segir þó að slökkvistarf hafi verið erfitt vegna gerðar hússins.

„Vandinn er sá að þegar svona mikill bruni myndast í strengjasteypuhúsi getum við hvorki verið með menn uppi á þökum né inni í húsinu. Slökkvistarfið var því mjög fljótlega fyrst og fremst unnið utan frá.“

Eðlileg forvitni borgarbúa

Bjarni segist ekki vita til þess að mikill ágangur borgarbúa á svæðið hafi tafið slökkvistörf eða valdið teljandi vandræðum. Hann segir lögregluna og björgunarsveitir hafa unnið mjög gott starf við að loka svæðinu og flestir hafi fylgt vel fyrirmælum þeirra.

„Þetta er bara mannlegt. Ég held að það sé ekki yfir neinu að kvarta, fólk er yfirleitt forvitið en þó fljótt að hlýða,“ segir Bjarni.

Slökkvistarf var aðallega unnið utan frá.
Slökkvistarf var aðallega unnið utan frá. mbl.is/Styrmir Kári
Verslunin Víðir opnaði í morgun, en Bjarni segir frábært að …
Verslunin Víðir opnaði í morgun, en Bjarni segir frábært að sjá hversu vel virðist hafa verið staðið að brunavörnum hjá fyrirtækinu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Forvitnir borgarbúar ollu litlum töfum á slökkvistarfi að mati Bjarna.
Forvitnir borgarbúar ollu litlum töfum á slökkvistarfi að mati Bjarna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert