62 ára og hélt að Viðeyjarsundið væri erfiðara

„Ég er ekkert kaldur,“ sagði Jón Sigurðarson, hinn 62 ára sundgarpur, þegar hann var nýstiginn á land eftir að hafa synt Viðeyjarsundið. „Ég hélt þetta yrði erfiðara,“ tjáði hann blaðamanni mbl.is, en aðstæður í dag voru hinar bestu að sögn Jóns.

Jón stundar reglulega sjósund, aðallega með félögum sínum í Nauthólsvík, og hefur synt ófáan sundsprettinn bæði hérlendis og erlendis. „Þetta er reyndar með lengri sundum sem ég hef synt, en þó ekki það lengsta,“ segir hann. „Þetta eru 4,5 kílómetrar, segja þeir mér.“

Ekki hættulaus íþrótt

Jón kveðst mæla með sjósundi fyrir sundáhugamenn, enda þótt íþróttin sé ekki hættulaus. Aðspurður í hverju ágæti íþróttarinnar felist segir hann: „Það er númer eitt að hreyfa sjálfan sig og svo er það félagsskapurinn.“ Hann minnist í því samhengi af gamansemi á samneyti við makrílin sem fæst í sjósundi en tekur jafnframt fram að menn eigi ekki að stunda íþróttina einir og óstuddir. 

„Menn eiga ekki að vera einir. Það er ávísun á vandræði.“ Byrjendur séu í hættu á að ofreyna sig en geti þó stundað sjósund á öruggan máta ef þeir fara varlega.

Jón ætlar ekki að láta staðar numið við Viðeyjarsundið, en í næstu viku ætlar hann ásamt öðrum að halda til Mývatns og synda þar þriggja kílómetra vegalengd.

mbl.is