Einar Kristján er nýr sveitarstjóri Húnavatnshrepps

Einar Kristján Jónsson
Einar Kristján Jónsson

Einar Kristján Jónsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Húnavatnshrepps en hann mun hefja störf 15. ágúst næstkomandi. Um 410 manns búa í Húnavatnshreppi og eru skrifstofur hreppsins á Húnavöllum.

Einar Kristján hefur lokið rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntun Háskóla Íslands auk þess sem hann hefur undanfarin ár stundað nám í viðskiptafræði við HÍ samhliða störfum. 

Hann gegndi stöðu deildarstjóra rekstrarsviðs Vátryggingafélags Íslands hf. frá 2003-2008 og var rekstrarstjóri Hreinsibíla hf. 2008-2010. Þá var hann verkefnastjóri eignaumsjónar og gæðaeftirlits hjá Frumherja frá 2010-2014. 

Einar hefur í gegnum tíðina gegnt fjölda trúnaðarstarfa. Hann var til að mynda formaður skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 2006-2009, hefur setið í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands, Glímufélags Íslands auk þess sem hann var formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks frá 2006-2013. Hann var sæmdur gullmerki Breiðabliks, silfurmerki KSÍ og gullmerki Ungmennafélags Íslands fyrir störf sín. Hann er kvæntur Liselottu Elísabetu Pétursdóttur, viðskiptafræðingi og eiga þau tvö börn. 

„Ég hlakka mjög til að taka við starfi sveitarstjóra í Húnavatnshreppi og kynnast því ágæta fólki sem þar býr. Sveitarfélagið stendur traustum fótum og býr yfir ýmsum möguleikum. Ég mun gera allt til þess að láta gott af mér leiða í þágu sveitarfélagsins og byggja upp enn betra samfélag til framtíðar,“ segir Einar Kristján í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert