Beitir sér ekki fyrir viðskiptaþvingunum

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Varðandi það hvort það sé kominn tími til að efna til viðskiptaþvingana eða viðskiptabanns á Ísrael þá er ég ekki viss um að það sé rétt að gera það að svo komnu máli. Ég er ekki viss um það,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í morgun í svari við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðissyni, þingmanni Samfylkingarinnar, þess efnis hvort ráðherrann teldi koma til greina að beita Ísrael viðskiptaþvingunum vegna deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Gunnar Bragi sagðist hins vegar ekki geta útilokað að til þess gæti komið ef alþjóðleg samstaða yrði um slíkra viðskiptaþvinganir. Hann sæi það hins vegar ekki fyrir sér á þessum tímapunkti að til þess kæmi. „Mun ég beita mér fyrir því að hefja viðræður um slíkt viðskiptabann? Ég á ekki von á því að það verði.“ Ráðherrann sagðist hins vegar telja mikilvægt að styðja við það friðarferli sem komið hefði verið af stað á milli Ísraels og Palestínumanna.

„Ég ítreka það að ég tel að Ísrael beri mesta ábyrgð á ástandinu sem þar er. En þeir bera ekki einir ábyrgð. Það er hópur manna á þessu svæði sem kalla sig Hamas-liða sem bera líka mikla ábyrgð. Og ég hef aldrei dregið dul á það að ég ber litla virðingur fyrir því ágæta fólki,“ sagði Gunnar Bragi ennfremur.

Össur spurði utanríkisráðherra að því hvernig hann gæti stutt viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi vegna stöðu mála í Úkraínu en ekki gegn Ísrael. Gunnar Bragi sagði grundvallarmun vera þar á. Alþjóðleg samstaða væri um það að beita Rússa viðskiptaþvingunum en slík samstaða væri ekki fyrir hendi í tilfelli Ísraels. Ef til slíkrar samstöðu kæmi hins vegar teldi hann líklegt að Ísland tæki þátt í slíkum aðgerðum.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is