Lítil hætta á súru regni

Þessi mynd frá Morten S. Riishuus sýnir þétta afgösun frá …
Þessi mynd frá Morten S. Riishuus sýnir þétta afgösun frá gossprungunni í gær, 16. október. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands/Morten S. Riishuus

„Málið er að í austanátt, þá er vanalega mjög lítil rigning vestanmegin á landinu og það er í austanátt sem mengunin fer til vesturs. Það er því ekki mikið regn um vestanvert landið þegar mengunin berst þangað líka,“ segir veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands. Hann kveðst jafnframt hafa litlar áhyggjur af því að súra regnið berist í vatnsból landsmanna þar sem sjaldnast sé um yfirborðsvatn að ræða auk þess sem að súra regnið yrði í svo litlu mæli ef til þess kæmi. 

„Það er þó ekkert útilokað að það muni falla súrt regn, það hefur samt sem áður lítið sem ekkert mælst hingað til. Þetta er kannski meira eitthvað sem kemur fram sem langtímaáhrif,“ segir hann.

Mikill niðurskurður

„Til þess að fylgjast með þessari efnavöktun, þá þarf einfaldlega bara pening. Það hefur verið 30% til 40% niðurskurður á ríkisframlagi til Veðurstofunnar á föstu verðlagi frá árinu 2008. Efnagreiningar, og svona efnavöktun, er einfaldlega mjög dýr og því miður er það svo í okkar litla samfélagi að það er kannski ekki hægt að hafa fullkomnar upplýsingar um alla hluti,“ segir hann.

„Við erum einfaldlega að vinna á jaðri þekkingar. Það hefur ekki komið samskonar gos hér á landi síðan liggur við í Móðuharðindunum, það var reyndar miklu stærra gos. Það er því verið að fást við ný viðfangsefni á mjög mörgum sviðum,“ segir hann að lokum.

Tærir byggingar og skemmir gróður

Súrt regn fell­ur þar sem regnið er blandað brenni­steins­sýru (H2SO4), salt­pét­urs­sýru (HNO3) og líf­ræn­um sýr­um, að því er fram kem­ur á Vís­inda­vef Há­skóla Íslands.

„Ef til þess kemur, gæti súrt regn með tíma tært byggingar og skemmt gróður. Það eru þó kannski meiri langtímaáhrif. Slíkt gerist ekki einn, tveir og þrír,“ segir hann.

„Annars held ég að landsmenn eigi bara að halda áfram sínu daglega lífi, þetta er ekki slíkt áhyggjuefni að menn þurfi að fara að færa sig á milli landshluta eftir því hvernig vindáttin er. Slíkt væri ógerningur. Við búum á eldfjallaeyju og þurfum bara að lifa með því,“ segir hann. Á fésbókarsíðu Veðurstofu Íslands segir jafnframt í nýtilkominni færslu að spáin um gosmengunina sé svipuð í dag og í gær. Töluvert meira af gasi og gosefnum virðist hafa streymt úr gígunum í Holuhrauni síðustu tvo daga en vikuna á undan.

Súrt regn getur fylgt eitruðu gasi sem kemur frá eldgosinu …
Súrt regn getur fylgt eitruðu gasi sem kemur frá eldgosinu í Holuhrauni. mbl.is/Golli
Mengunin í dag.
Mengunin í dag. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina