„Ótilgreindir útlendingar“ sagðir eigendur

Framkvæmdastjóri Neytendalána ehf. segist sjálfur eiga félagið. Það félag á …
Framkvæmdastjóri Neytendalána ehf. segist sjálfur eiga félagið. Það félag á Hraðpeninga, 1909 og Múla ehf. sem öll veita smálán. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Neytendalán ehf. er í 100% eigu „ótilgreindra útlendinga“ samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi félagsins fyrir árið 2013. Fleira kemur ekki fram um eigendur í ársreikningnum en í tölvupósti frá framkvæmdastjóra félagsins segist hann sjálfur eiga félagið. Hann hafi keypt það af Jumdon Finance Ltd. á Kýpur 2013. Þegar blaðamaður leitaði upplýsinga hjá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra um hvort leyfilegt væri að skrá hluthafa með þeim hætti sem gert er hjá Neytendalánum, fengust þau svör að svo væri ekki og ársreikningi Neytendalána ehf. fyrir árið 2013 var því hafnað á föstudag en hann hafði áður sloppið í gegn.

Fyrirtækið Neytendalán er nokkurs konar hattur þriggja fyrirtækja sem veita smálán; Hraðpeninga ehf., 1909 ehf. og Múla ehf. Þeir sem taka smálán hjá einhverju þessara þriggja smálánafyrirtækja frá reikning frá Neytendalánum ehf. í heimabankann þegar kemur að skuldadögum.

Neytendalán ehf. var stofnað í þeirri mynd sem það er nú í september 2013. Þá keypti Jumdon Finance Ltd. á Kýpur allt hlutafé í Neytendalánum. Fyrirtækið er þó ekki skráður eigandi samkvæmt ársreikningi fyrir 2013 heldur er félagið sagt í eigu „ótilgreindra útlendinga“.

Fullgilt umboð fyrir kýpverska huldufélagið Jumdon Finance Ltd. hér á landi hefur Skorri Rafn Rafnsson, en í samtali við blaðamann hefur hann neitað því að hafa nokkur tengsl við félagið.

Í tölvupósti sem birtur er orðréttur í heild með þessari frétt segist Óskar Þorgils Stefánsson, framkvæmdastjóri Neytendalána ehf. (sem einnig er titlaður framkvæmdastjóri Hraðpeninga á vef fyrirtækisins), eiga Neytendalán sjálfur. Hann hafi keypt það á árinu 2013 af Jumdon Finance. Ennfremur er staðhæft að fyrri eigandi hafi „ekki komið að rekstri fyrirtækisins í á fjórða ár“.


Fyrri eigandinn sem Óskar vísar til er Skorri Rafn Rafnsson. Samkvæmt öruggum heimildum blaðamanns er Skorri Rafn Rafnsson, sem staðhæft er í tölvupóstinum að hafi ekki tengsl við reksturinn, fulltrúi félagsins hér á landi. Félag í hans eigu sem rak smálánastarfsemi í Króatíu til ársins 2012 var ennfremur fulltrúi Jumdon Finance á Kýpur.

Ekkert kemur fram í ársreikningi Neytendalána fyrir 2013 um að Jumdon Finance eigi félagið og ekki heldur neitt um að Óskar eigi það. Engar upplýsingar koma fram um hluthafa aðrar en að þeir séu „ótilgreindir útlendingar“.

Ekkert hefur fengist uppgefið um hverjir eru hluthafar í Jumdon Finance Ltd. og eins og kom fram í umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins 11. janúar hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að félagið hafi nokkra starfsemi á Kýpur.

Ársreikningi Neytendalána ehf. fyrir árið 2013 var skilað inn í september 2014 og er hann undirritaður af Guðmundi Jens Þorvarðarsyni, löggiltum endurskoðanda.

Ársreikningurinn er ófullnægjandi að mati ársreikningaskrár ríkisskattstjóra og á föstudag hafnaði hún reikningnum og sendi félaginu hann til baka með ósk um úrbætur.
Ef ársreikningaskrá fær ábendingar um að ársreikningar kunni að vera ófullnægjandi eru þeir skoðaðir sérstaklega og hafnað ef svo reynist vera.

Ársreikningi hafnað eftir ábendingu blaðamanns
Ákveðið var að hafna reikningnum eftir að blaðamaður spurðist fyrir um það hjá embætti Ríkisskattstjóra hvort leyfilegt væri að segja í ársreikningi að hluthafar félags væru „ótilgreindir útlendingar“.

Í kjölfar símtals blaðamanns var ársreikningur Neytendalána fyrir árið 2013, sem skilað var inn til RSK þann 29. september 2014, skoðaður. Þegar fulltrúi embættisins hafði samband við blaðamann aftur fengust þær upplýsingar að ársreikningur Neytendalána ehf. fyrir 2013 væri alls ekki ásættanlegur. Skýrt sé í lögum að tilgreina beri hvern hluthafa fyrir sig í fylgiskjali með ársreikningi félags. Það eigi við hvort sem hluthafar eru innlendir eða útlendir.

Þar að auki vanti í ársreikninginn skýrslu stjórnar. Skylt er að birta þar upplýsingar um 10 stærstu hluthafa hvers félags.

Lenti ekki í úrtaki og slapp því í gegn

Á síðasta ári tók ársreikningaskrá RSK á móti tæplega 28.000 ársreikningum vegna ársins 2013 og gefur augaleið að ekki er unnt að kanna innihald þeirra allra með þeim mannafla sem fyrir hendi er. Í lögum er enda gert ráð fyrir að ársreikningaskrá geri úrtakskannanir á því hvort reikningar séu í samræmi við ákvæði laga. Allnokkur fjöldi reikninga er felldur af skrá árlega sem ófullnægjandi, en ekki fæst uppgefið hversu margir þeir eru. 

Í samtali við blaðamann sagði starfsmaður embættisins að þessi reikningur hefði einfaldlega ekki lent í úrtaki og því hefðu annmarkar á honum ekki uppgötvast fyrr en blaðamaður hringdi og benti á birtingu hluthafa undir heitinu „ótilgreindir útlendingar“.

Samkvæmt upplýsingum frá embættinu er það einsdæmi að hluthafar séu birtir undir þessu heiti. Að minnsta kosti hafði enginn hjá embættinu fyrr né síðar séð svona hluthafaskráningu í ársreikningi.

Samkvæmt ársreikningnum voru talsverð umsvif hjá Neytendalánum ehf. á árinu 2013, þrátt fyrir að það hafi tekið til starfa í september það ár. Veltufjármunir sem flokkaðir eru sem skammtímakröfur og skammtímalán nema samanlagt um 257 milljónum króna. Ekki er hægt að segja til um hvort þessi tala sýnir veltu smálána enda benti endurskoðandi sem blaðamaður ræddi við á að talsvert skorti upp á að skýringar með reikningnum væru fullnægjandi.

Eigið fé Neytendalána ehf. nam 26 milljónum króna í árslok 2013 en skammtímaskuldir samtals 253 milljónum króna samkvæmt ársreikningnum sem skilað var inn. Hagnaður fyrir skatta nam 34 milljónum króna og hagnaður eftir skatta nam tæpum 26 milljónum króna.

Greinin birtist upphaflega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25.janúar 2015. 

mbl.is
Í ársreikningi er skylt að geta um hluthafa. Í ársreikningi …
Í ársreikningi er skylt að geta um hluthafa. Í ársreikningi Neytendalána ehf. fyrir 2013 voru ekki sérlega nákvæmar upplýsingar um helstu hluthafa. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »