Vilja stöðva smálánafyrirtæki

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir tímabært að Neytendasamtökin og …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir tímabært að Neytendasamtökin og verkalýðshreyfingin taki höndum saman. mbl.is/Hari

„Það þarf að stöðva þessa glæpastarfsemi hið fyrsta og við þurfum að kortleggja hverjir bera ábyrgð á því að fyrirtækin geti komist í svokallaða kröfupotta og hver ber ábyrgð á því að smálánafyrirtæki komist upp með það að innheimta ólögleg lán án þess að sundurliða kostnað,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um tillögu sem lögð verður framá stjórnarfundi VR í kvöld. 

Tillagan snýr að því að VR skuli fara í samstarf með neytendasamtökunum í baráttunni gegn smálánum. Enn er í mótun hvernig samstarfinu skuli háttað en markmið samstarfsins er skýrt, að stöðva starfsemi smálánafyrirtækja. Mun það vera gert með því að VR og Neytendasamtökin aðstoði þá sem tekið hafa lán hjá smálánafyrirtækjum að greiða lögfræðikostnað og kostnað vegna dómsmála. Jafnframt mun VR, ef tillagan verður samþykkt, hvetja fólk til að greiða ekki af smálánum. 

„Við viljum snúa við sönnunarbyrði og tryggja réttarstöðu þeirra sem eiga í hlut, fórnarlamba þessara fyrirtækja, þeirra sem innheimta og þeirra sem fóstra síðan innheimtuna eins og Sparisjóður Strandamanna. Við erum sterkt og öflugt félag, mjög fjárhagslega sterkt og ef stjórnin samþykkir að fara í málið, sem er þjóðþrifamál, með Neytendasamtökunum þá er alveg ljóst að það verður farið í rót vandans og það verður farið í þetta af mikilli hörku,“ segir Ragnar.

Spurður hver kostnaðurinn í fyrirhugaðri baráttu verði fyrir VR segir Ragnar: „Miðað við hvað þetta er að kosta í lýðheilsu fólks og jafnvel mannslíf þá er ég ekki tilbúinn í að kasta einhverjum krónum eða aurum á slíkan kostnað.“

„Dæmalaust ofbeldi“

Ragnar segir að ríkið og löggjafinn ættu „að sjálfsögðu“ að fjármagna slíka baráttu. „En þetta er ekki í fyrsta skipti sem stéttarfélag stígur inn í og vinnur skítverkin fyrir löggjafann. Það hefur meðal annars gerst varðandi leigufélögin og fleira. Við erum núna reyndar að vinna með löggjafanum í að búa til nýja leiguvernd og það er frumvarp væntanlegt í haust varðandi leigufélögin. Á meðan komast þessi fyrirtæki upp með dæmalaust ofbeldi.“

Ragnar segir smálánafyrirtæki vera „glæpafyrirtæki“. „Það er ekki hægt að kalla þau neitt annað. Þau eru meðal annars fóstruð hjá Sparisjóði Strandamanna sem virðist vera einhvers konar frontur fyrir glæpamenn. Þau komast inn í ákveðinn kröfupott í gegnum Sparisjóð Strandamanna og ég tel að þar sé ákveðin rót vandans sem þarf að fara í. Forsvarsmenn þessa sjóðs munu þurfa að svara fyrir það að fóstra glæpafyrirtæki.“

Hvetja fólk til að hætta greiðslum

Spurður hvort ekki sé eðlilegt að þeir sem taki smálán greiði vexti af þeim eins og samið er um segir Ragnar: „Það eru dæmi þess að smálánafyrirtækin séu að rukka inn smálán eða höfuðstól þar sem er búið að setja inn kolólöglegan vaxtakostnað. Það er búið að dæma þessi lán ólögleg og þessa starfsemi líka. Fyrirtækin þurfa að sýna fram á sundurliðun kostnaðar í gegnum kröfur sem þau eru að setja á fólk, en það gera þau ekki.“

VR mun hvetja fólk til þess að greiða ekki af lánum sínum. „Ef af þessu verður þá munum við að sjálfsögðu hvetja fólk til þess að greiða ekki eina einustu krónu af þessum kröfum eða þessu láni fyrr en fyrir liggur sundurliðun af höfuðstól og öllum kostnaði sem starfshópur Neytendasamtakanna mun síðan fara yfir fyrir fólk. Síðan munum við væntanlega taka ákvörðun um framhaldið.“

Ragnar segir mikilvægt að tillagan verði samþykkt. „Það má engan tíma missa í þessu því fyrirtækin virðast ganga mjög hart fram nú um mundir án þess að ég geti tjáð mig eitthvað sérstaklega um skýringarnar á því. Þess vegna þarf að bregðast hratt og kröftuglega við.“

Hann er bjartsýnn á að af samstarfinu verði. „Það er kominn tími á að Neytendasamtökin og verkalýðshreyfingin fari að vinna saman í stað þess að vinna í sitt hvoru horninu. Ég vona að fleiri félög komi í þetta með okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina