Ásakanir eigi ekki við rök að styðjast

Ferðaþjónusta fatlaðra.
Ferðaþjónusta fatlaðra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Strætó bs. hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings um öryggi í bílum akstursþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó. Þar kemur m.a. fram að ökutæki akstursþjónustunnar fari reglubundið í gegnum ítarlega gæða- og öryggisúttektir á vegum Strætó bs.

Yfirlýsingin í heild:

Akstursþjónusta fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu

Rétt skal vera rétt

Í fréttum 19. febrúar sl. um erindi Guðbjargar Kristínar Ludvígsdóttur læknis á umferðaþingi Samgöngustofu, komu fram mjög alvarlegar ásakanir um öryggi og aðbúnað í ökutækjum sem tilheyra akstursþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó bs. Ásakanir sem ekki eiga við rök að styðjast. Strætó telur því nauðsynlegt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Reglulegar gæða- og öryggisúttektir

Ein helsta forsenda fyrir endurskoðun á ferðaþjónustu fatlaðs fólk var að auka ætti öryggi og gæði þjónustunnar. 

Ökutæki akstursþjónustunnar, bílstjórar og aðrir starfsmenn akstursþjónustunnar þurfa að uppfylla ákvæði laga, reglugerða og leiðbeininga velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fatlaðs fólks frá 24. janúar 2012.

Ökutæki akstursþjónustunnar fara reglubundið í gegnum  ítarlega gæða- og öryggisúttektir á vegum Strætó bs. Niðurstöður úttektanna eru sýnilegar í ökutækjum.

Öll ökutæki með belti og festingar fyrir hjólastóla

Eitt af þeim skilyrðum sem sett voru í útboðsgögn Strætó fyrir akstursþjónustuna er að allir bílar akstursþjónustunnar séu með þriggja punkta belti fyrir hjólastóla, festingar fyrir hjólastóla. Auk þess eru bæði höfuðpúðar og bakstuðning fyrir fólk í hjólastólum. Það er því alvarlegt þegar fram kemur í fréttum sú ranga fullyrðing að það vanti bílbelti og tilskilinn útbúnað fyrir hjólastóla í mjög marga bíla.

Strætó leggur mikla áherslu á öryggi. Þess vegna var sérfræðingur Öryggismiðstöðvarinnar fenginn til að vera með innlegg og fræðslu fyrir alla ökumenn akstursþjónustunnar um öryggisatriði sem snúa sérstaklega að hjólastólum. Jafnframt hefur verið tekið upp samráð við Sjúkratryggingar Íslands til að finna leiðir til að tryggja að allir hjólastólar uppfylli öryggisviðmið, séu merktir í samræmi við það og séu með festingum til að festa í bíla.

Námskeið fyrir bílstjóra

Á námskeið fyrir bílstjóra, sem undirbúið var í samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðs fólks hefur m.a. verið lögð áhersla á að fræða bílstjóra um mun þess að sitja í venjulegu bílsæti og því að sitja í hjólastól. Hlutverk námskeiðs fyrir bílstjóra um fatlanir er til þess að þeir séu vel undirbúnir fyrir það verkefni að þjóna ólíkum notendum og til að auka skilning þeirra og færni í því að veita góða þjónustu.

Það má örugglega gera betur í allri umgjörð þegar kemur að málaflokki fatlaðs fólks, þar á meðal í akstursþjónustu fatlaðs fólks. Það er samt sem áður ánægjulegt að geta bent á að það sem sagt er að nauðsynlegt sé að gera til að bæta úr hefur þegar verið gert:

  • Velferðarráðuneytið hefur sett fram leiðbeiningar um ferðaþjónustu fyrir sveitarfélögin.
  • Öll ökutæki akstursþjónustunnar þurfa að uppfylla gæða- og öryggisúttekt sem gerð er einu sinni á ári.
  • Bílstjórar akstursþjónustunnar hafa þegar fengið þjálfun í öryggisatriðum m.a. þeim að festa öryggisbelti á fólk í hjólastól og tryggja öryggi þeirra.
  • Þegar hefur verið haldið námskeið sem undirbúið er í samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og fjallar um helstu fatlanir og atriði sem skipta máli við ólíkar aðstæður.

Mikilvægt að fá allar ábendingar um það sem betur má fara

Strætó hvetur notendur til þess að koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum með, tölvupósti fyrirspurnir@straeto.is, í gegnum vefsíðu Strætó (www.straeto.is) eða með símtali í þjónustuver (540 2700). Allar ábendingar og athugasemdir eru skráðar og unnið úr þeim eins fljótt og kostur er og þær nýttar til að bæta þjónustuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert