Gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar eru hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins undanfarin fimm ár. Í skýrslu sem Samgöngustofa er að vinna um umferðarslys á árinu 2014 kemur þetta fram. Alls urðu 162 slys og óhöpp á gatnamótunum. Alls urðu 19 slys þar sem meiðsli á fólki eru skráð.
Gatnamótin hafa verið hættulegustu gatnamót landsins mörg undanfarin ár en þau voru einnig í efsta sætinu yfir slys frá 2008-2012.
Sjá einnig frétt mbl.is: Þrenging Grensásvegar óskiljanleg
Miklabraut sker sig töluvert úr sem hættulegasta gata borgarinnar en hún tengist gatnamótum í þremur efstu sætunum þegar kemur að slysum og óhöppum með og án meiðsla á þessu fimm ára tímabili. Ein helsta skýringin á þessu er auðvitað sú að Miklabrautin er helsta umferðaræð borgarinnar og um hana fara þúsundir ökutækja á hverjum sólarhring.
Önnur hættulegustu gatnamótin á höfuðborginni eru Miklabraut/Kringlumýrarbraut en 160 slys og óhöpp urðu þar með og án meiðsla. Séu aðeins slysin skoðuð þar sem urðu meiðsli á fólki eru gatnamótin í 11. sæti með níu slys á fólki.
Topp tíu listann yfir hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðið má sjá efst á síðunni.
Þegar litið er til slysa með meiðslum lítur listinn aðeins öðruvísi út, en þó eru gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar einnig efst á lista því þar urðu 19 slys með meiðslum á síðustu fjórum árum.
Gatnamótin við Háaleitisbraut og Miklubraut eru í öðru sæti með 17 slys eins og gatnamótin við Reykjanesbraut og Bústaðaveg. Önnur tenging Hafnarfjarðar við Reykjavík, gatnamótin við Hraunbrún og Reykjavíkurveg og Flatahraun og Reykjavíkurveg, eru í fjórða sæti með 16 slys.