Hélt að framboðið væri grín

Kristján L. Möller alþingismaður.
Kristján L. Möller alþingismaður. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Ég var íþróttafulltrúi til margra ára og framkvæmdi skíðamót og annað slíkt. Ég hef oft séð menn sigra með einu sekúndubroti eða marki á síðustu stundu. En að sjá það gerast í formannskjöri í flokknum það hefði ég aldrei geta ímyndað mér.“

Þetta sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi samgönguráðherra, í samtali við mbl.is á landsfundi flokksins í kvöld eftir að ljóst var að Árni Páll Árnason hefði sigrað með aðeins einu atkvæði. Mótframbjóðandi hans, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, tilkynnti framboð sitt seinni partinn í gær. Reglur flokksins gera ráð fyrir almennri atkvæðagreiðslu á meðal flokksmanna. Hins vegar eru allir í kjöri á landsfundinum.

„Ég var harður stuðningsmaður Árna og fagna því að hann sigraði. Það var tekist á um formannsembættið og þetta framboð hennar var óvænt. Þegar ég sá þetta í gærkvöldi hjá ykkur á mbl.is þá hélt ég að það væri verið að gera grín. Ég hafði engan pata af þessu framboði hennar. Ég hef alltaf verið stuðningsmaður þess að kosning til formanns eigi að fara í gegnum allsherjarkosningu eins og lög segja til um. Þá hefði Sigríður þurft að bjóða sig fram fyrir mánuði síðan. Þá hefðu allir flokksmenn fengið að kjósa eins og við höfum yfirleitt alltaf gert. Nema þegar Jóhanna var ein í framboði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert