Hörð barátta á Hótel Sögu

Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.
Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.

„Það er ljóst að þetta verður harður slagur en hvorki ég sjálf né Ungir jafnaðarmenn munum lýsa yfir stuðningi við annan hvorn frambjóðandan,“ segir Eva Indriðadóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna um baráttuna um formannssætið sem mun eiga sér stað á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. 

Kosningin er rafræn og hefst hún klukkan 17:30 og stendur yfir í klukkustund. Úrslitin verða tilkynnt klukkan 18:45. 

Eva segir að innan raða ungliðahreyfingarinnar séu skiptar skoðanir. „Það eru skiptar skoðanir líkt og í flokknum í heild og ég held að þau eigi bæði góðan séns, enda er baráttan orðin hörð. Það er allt á fullu núna á Hótel Sögu.“

Aðspurð hvað hún telji að valdi því að formannsslagur sé til kominn, segir Eva Sigríði lýsa því best sjálf í eigin orðum. „Eins og hún orðar það þá gefur hún kost á sér vegna þess að hún vill leiða flokkinn í átt að nútímalegri jafnaðarmannaflokki,“ segir Eva.

Formannsslagurinn hefur töluverð áhrif á landsfundinn enda var ekki fyrirséð að tveir yrðu í framboði. „Þetta kom vissulega mjög á óvart og fundurinn átti ekki von á þessu. Ég myndi halda að  það verði betri sókn á fundinn heldur en hefði verið ef ekki hefði komið til formannsslags. Þetta er virkilega spennandi, það er troðfullur salur og fólk ennþá að streyma að,“ segir Eva að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert