Tók stórt stökk inn í framtíðina

Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.
Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.

Formaður Ungra jafnaðarmanna, Eva Indriðadóttir segir Samfylkinguna hafa tekið stórt stökk inn í framtíðina á landsfundi sínum um helgina. Miklar breytingar urðu í stefnu flokksins og viðsnúningur í afstöðu til stórra mála á borð við aðskilnað ríkis og kirkju, olíuvinnslu og mannréttindi.

„Við erum í hæstu hæðum, segir Eva Indriðadóttir, í fréttatilkynningu. „Góður undirbúningur okkar og barátta á landsfundi skilaði sér í breyttum flokki. Meðal mála sem við fengum í gegn er aðskilnaður ríkis og kirkju, andstaða við olíuvinnslu og færsla kosningaaldurs niður í 16 ár. Auk þess hlutu frambjóðendur Ungra jafnaðarmanna í trúnaðarstöður mikið brautargengi.“

Mistök Samfylkingarinnar viðurkennd

Sema Erla Serdar frá Ungum jafnaðarmönnum var kjörin formaður framkvæmdastjórnar flokksins auk þess sem ungliðarnir Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, Ásþór Sævar Ásþórsson og Inga Björk Bjarnadóttir voru kjörnir í framkvæmdastjórn. Þetta þýðir að meirihluti framkvæmdastjórnar flokksins er skipaður ungliðum, samkvæmt tilkynningu.

Tillaga Ungra jafnaðarmanna um að hafna áformum um olíuvinnslu hlaut afgerandi kosningu í atkvæðagreiðslu á landsfundi. Í tillögunni eru mistök Samfylkingarinnar í málinu viðurkennd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert