Þekkja vandamálið en ekki lausnina

Framhaldsskólakennarar sitja við samningaborðið á ný.
Framhaldsskólakennarar sitja við samningaborðið á ný. Árni Sæberg

Framhaldsskólakennarar sitja nú við samningaborðið hjá ríkissáttasemjara á ný eftir að vinnumat, sem var hluti af nýjum kjarasamningi, var fellt í lok febrúarmánaðar. Skrifað var undir kjarasamning í byrjun apríl á síðasta ári en þá hafði verkfall framhaldsskólakennara staðið yfir í nokkurn tíma.

Þegar vinnumatið var fellt voru samningar lausir á ný. Samninganefnd Félags framhaldsskólakennara fundaði með fulltrúum ríkisins í húsi ríkissáttasemjara á mánudag og gekk fundurinn vel að sögn Guðríðar Arnardóttur, formanns félagsins.

Meiri sanngirni í mati á mismunandi greinum

„Við sitjum við samningaborðið og ræðum alla fleti á mögulegri kjarasamningsgerð. Við erum sammála um að við erum að ræða um áframhaldandi samkomulag sem byggir á vinnumati en með breytingum,“ segir Guðríður í samtali við mbl.is.

„Félagsmenn felldu vinnumatið eins og það var lagt fyrir á sínum tíma og við höfum nokkuð góðar hugmyndir um hvað það var sem hugnaðist fólki ekki. Við ætlum að reyna að ná samkomulagi um að sníða af helstu vankanta sem við teljum vera á þessu nýja vinnumati.“

Aðspurð segist Guðríður ekki vilja fara nákvæmlega í þau atriði sem eru til umræðu við samningaborðið en segir að gagnrýni félagsmanna vegna vinnumatsins hafi verið af ýmsum toga.

„Fólki hefur þótt vanta skýrari ramma utan um vinnumatið, til að mynda að þau sýnidæmi sem voru unnin þyrftu að vera bindandi sem lágmarksviðmið og það þyrfti að ná meiri sanngirni í mati á milli mismunandi greina,“ segir Guðríður.

Þurfa að taka að sér fleiri verkefni

Fjöldi nemenda er það sem hefur mestu áhrifin á vinnumatið.  „Mat á áföngum telur mjög hratt úr frá fjölda nemenda. Áfangar með fleiri nemendur reiknast þyngri, umsvifameiri í klukkutímum talið. Það þýðir að í greinum þar sem fámennir nemendahópar eru viðmið, eins  í og verkgreinum og listgreinum, en þar telst vinnumatið lægra í tímum talið,“ segir Guðríður.

Því þurfa kennarar sem kenna fámennari hópum að taka að sér fleiri verkefni til að sama tímafjölda og þeir sem kenna fjölmennari hópum. Þannig munu allir framhaldsskólakennarar fá sömu launahækkun.

Samninganefnd Félags framhaldsskólakennara hittist á vinnufundi í gær og funda með ríkissáttasemjara í dag. 

„Við viljum að þetta vinnist hratt. Við þekkjum vandamálin en erum ekki búin að sjá lausnina,“ segir Guðríður. Hún segir fundinn á mánudag hafa gengið vel. Engar ákvarðanir hafi verið teknar en ýmislegt hafi verið lagt á borðið.

Frá baráttufundi framhaldsskólakennara á síðasta ári.
Frá baráttufundi framhaldsskólakennara á síðasta ári. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert