Grét í tvo daga eftir bréfið

„Hvað kemur öðrum það við hvað maður hefur í íbúðinni sinni,“ segir Sigurveig Buch íbúi  hjá Brynju, Hússjóði Öryrkjabandalagsins. Fyrir skömmu barst íbúum bréf þar sem íbúar eru beðnir um að losa sig við hunda eða ketti í húsnæði Brynju eða eiga annars á hættu að leigusamniningi yrði rift.

Sigurveig sem þjáist af slitgigt og brjósklosi segir að félagsskapurinn af kettinum sínum, Kristóferi Buch, sé henni lífsnauðsynlegur en jafnframt að ómögulegt sé fyrir sig að finna sér aðra íbúð. Köttinn hefur hún átt frá því að hún flutti inn á Sléttuveg fyrir átta árum síðan og því kemur henni á óvart að það eigi að fara að taka svo hart á dýrahaldinu nú.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, segir bréfið hafa verið sent til að ítreka gamlar reglur og hafi verið gert áður. Öllum leigjendum ætti að vera þetta ljóst þegar skrifað er undir leigusamning, hann tekur þó fram að aðrar reglur gildi um hjálparhunda á borð við blindrahunda. 

Búið er að safna undirskriftum í húsinu sem Sigurveig býr í þar sem um 32 íbúar koma því á framfæri að þeir séu ekki á móti slíku dýrahaldi í húsinu en Björn segir að ekki muni verða gerðar undanþágur vegna slíkra undirskriftalista. „Til hvers að setja reglur ef ekki á að fara eftir þeim.“

Reglurnar séu sambærilegar og hjá öðrum búsetufélögum og settar til þess að vernda aðra íbúa sem gætu haft ofnæmi eða verið hræddir við hunda.

Í myndskeiðinu er rætt við Sigurveigu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert