Braut sér leið út úr flakinu

TF-REX hvílir í sjónum.
TF-REX hvílir í sjónum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Magnús Hlini Víkingur Magnússon, flugmaður þeirrar vélar sem hafnaði í sjónum við Mosfellsbæ fyrr í dag, segist ekki hafa verið að stunda lágflug þegar atvikið átti sér stað, heldur hafi einungis verið um slys að ræða.

Magnús Hlini og faðir hans, Magnús Víkingur, gáfu sér tíma til þess að ræða við blaðamann vegna slyssins.

„Ég var að fara að taka snertilendingu til austurs og var því alls ekki í neinu lágflugi eða með glannaskap,“ segir Magnús Hlini í samtali við mbl.is og bendir á að þegar hann tekur u-beygju á flugvél sinni hafi hann verið í „góðri hæð.“

Magnús Hlini hefur verið með einkaflugmannsréttindi í um tvö ár og á hann að baki 140 til 150 flugtíma. Í morgun, einungis fáeinum klukkustundum fyrir slysið, lauk hann síðasta skólaprófi sínu í atvinnuflugmannsnámi.

Vinstri vængurinn fyrst - svo á hvolf

Aðspurður segir Magnús Hlini flugvélina, sem er af gerðinni Jodel D-117A, hafa misst flug í miðri vinstri beygju. „Hún fór í dýfu á leiðinni niður í vinstri beygju. Og ég gef þá í botn og reyni um leið að rétta beygjuna af en hæðin var ekki nóg til þess. Fyrst fór vinstri vængurinn í sjóinn og svo endaði vélin á hvolfi.“

Spurður hvort hann muni vel eftir slysinu sjálfu kveður hann já við. „Ég man eftir eiginlega öllu en ég er samt ekki alveg viss hvernig ég komst út. Ég man eftir því að hafa verið að brjóta eitthvað. Ég held ég hafi einhvern veginn náð að brjóta mér leið út um hlið vélarinnar,“ segir Magnús Hlini. 

- Hvað gerðirðu eftir að út var komið?

„Ég fór strax að leita að símanum mínum svo ég gæti hringt í Neyðarlínuna. En það sást ekkert ofan í vatninu.“ Eftir að flugvélin skall á haffletinum fylltist klefi hennar fljótlega af sjó. Hann segist því lengi hafa verið „á bólakafi“ áður en honum tókst að brjóta sér leið út úr flaki vélarinnar. 

Hringdi strax í pabba

Þegar ljóst var að síminn myndi ekki finnast segist Magnús Hlini hafa tekið eftir því að fólk stóð við ströndina skammt frá. Ákvað hann þá að koma sér í land. „Þá voru þeir búnir að hringja í Neyðarlínuna og ég fékk að hringja [hjá þeim] í pabba sem var á Flúðum. Ég ætlaði að fara til hans á flugvélinni.“

- Hvað flýgur í gegnum huga manns sem lendir í svona lífsreynslu?

„Ég get eiginlega ekki svarað því í einu orði. Þetta voru svo margar hugsanir. Vélin er sködduð og mér var eitthvað illt í öxlinni. Það var heilmargt sem fór í gegnum hugann.“

Högg við brotlendingu af þessu tagi er gríðarlegt en í slysinu fór meðal annars önnur öxlin á honum úr lið auk þess sem Magnús Hlini hlaut fjölmarga minni áverka og skrámur á líkamanum. Hann má þó teljast mjög heppinn, sér í lagi í ljósi þess hve illa skemmd flugvélin sé.

Algeng orsök flugslysa

Faðir hans, Magnús Víkingur Grímsson, er einnig flugmaður. Segir hann son sinn hafa verið að æfa lendingu með svokölluðum loftbremsum (e. air brakes) þegar atvikið átti sér stað.

„Það er til þess að drepa niður hraða. Honum fannst hann vera í of mikilli hæð til þess að ná endanum á vellinum í Mosó. [...] En fyrir vikið þoldi vélin ekki beygjuna og þá missir hún flug. Hæðin var hins vegar ekki nægjanleg til þess að ná fluginu aftur. Akkúrat svona hafa mörg flugslys orðið á Íslandi sem og annars staðar í heiminum,“ segir Magnús Víkingur.

Hann segir það kraftaverki líkast að sonur sinn skyldi hafa lifað brotlendinguna af.

„Eins og flakið lítur út þá er vélin handónýt og því ótrúlegt að hann skyldi ekki hafa rotast eða hálsbrotnað í brotlendingunni. Það vill svo til að hann er hraustur vel svo hann nær að brjóta sig út úr vélinni sem þá er full af sjó,“ segir Magnús Víkingur og bendir á að sonur sinn hafi náð að losa af sér öryggisbeltið, snúa sér við og draga djúpt andann áður en klefi vélarinnar fylltist af sjó. „Það er ekki síður kraftaverk.“

Búið er að ná flaki flugvélarinnar, sem ber einkennisstafina TF-REX, upp úr sjónum og verður það flutt í skýli rannsóknarnefndar samgönguslysa á Reykjavíkurflugvelli til nánari skoðunar.

Fyrri fréttir mbl.is:

Flugvélin komin á þurrt land

Heppinn að lenda ekki á tanganum

Flugvél í sjóinn við Mosfellsbæ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert