PIP-púðamál íslenskra kvenna tekið fyrir í sumar

PIP-brjóstapúði úr sílikoni.
PIP-brjóstapúði úr sílikoni. mbl.is/afp

Rúm fjögur ár eru liðin frá því að PIP-brjóstafyllingamálið komst í hámæli þegar í ljós kom að franska fyrirtækið Poly Implant Prothése hafði notað svokallað iðnaðarsílikon í brjóstafyllingar sem það framleiddi. Um 440 íslenskar konur fengu ígræddar PIP- brjóstafyllingar. Af þeim hafa 204 höfðað mál á hendur TÜV Rheinland sem sá um eftirlit með framleiðslunni í Frakklandi. Hópmál Íslendinganna er annað í röðinni á hendur eftirlitsaðilanum og verður tekið fyrir í undirrétti í Frakklandi hinn 24. júlí nk. Dómur áfrýjunarréttar í fyrri hópmálsókninni í Frakklandi mun liggja fyrir hinn 2. júlí nk. Áður en mál íslensku kvennanna verður tekið fyrir mun liggja fyrir dómur áfrýjunarréttar Frakklands (Court of appeal of Aix-en-Provence) í fyrstu hópmálsókninni.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslensku kvennanna, segir dóm sem kveðinn verður upp 2. júlí nk. gefa góðar vísbendingar um það hvernig mál íslensku kvennanna muni fara. „Hafa verður þó þann fyrirvara á að málin eru ekki öll eins þar sem íslenski hópurinn mun láta reyna á þætti sem ekki var reynt á í fyrri málsókn, t.d. ná mál íslensku kvennanna lengra aftur í tímann,“ segir Saga.

Hún bendir á að allt ferlið í þessu máli í Frakklandi sé frekar einfalt. Í því felst m.a. minni kostnaður við að sækja málið, ekki eru gerðar jafnstrangar kröfur til framlagðra gagna og mörg dæmi eru um að konur leggi einungis fram svokallað PIP-brjóstafyllingakort og aðgerðarskýrslu þegar PIP-brjóstafyllingarnar voru græddar í og síðan fjarlægðar.

Ef litið er til fyrri hópmálsóknar þá var TÜV Rheinland gert að greiða hverri konu innborgun upp á þrjú þúsund evrur. Auk þess leggur hópur sérfræðinga mat á mál hverrar konu til þess að ákvarða endanlegar bætur í hverju tilviki.

„Ég vona að þetta fari vel og að íslenskar konur fái fullar bætur,“ segir Saga. Eins og staðan er núna er Saga ekki að skoða hvort höfðuð verði mál á Íslandi en hún vonast til þess að dómur undirréttar í máli íslenskra kvenna í Frakklandi verði kveðinn upp í september á þessu ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert