WOW flýgur til Kanada á næsta ári

Skúli Mogensen eigandi Wow air
Skúli Mogensen eigandi Wow air mbl.is/Kristinn Ingvarsson

WOW air ætlar snemma á næsta ári að hefja flug til Montréal í Kanada, en flogið verður 4-5 sinnum í viku. Á næstu mánuðum mun félagið svo kynna fleiri áfangastaði í Norður-Ameríku, en Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi félagsins, segir að áformað sé auka starfsemi WOW 50% milli ára og að félagið verði með níu flugvélar í þjónustu á næsta ári.

Fara úr 6 vélum í 9 á næsta ári

Skúli var staddur í Montréal þegar blaðamaður náði í hann, en félagið var að ljúka við að sækja um öll tilskylin leyfi fyrir fluginu og aðstöðu á flugvellinum þar í borg. Staðfesti Skúli að félagið muni hefja flug snemma á næsta ári, þar sem aðeins sé um formsatriði að ræða að klára ferlið, enda fljúgi WOW nú þegar til Norður-Ameríku.

Í ár er WOW með sex vélar í þjónustu, en með auknu flugi vestur um haf segir Skúli að þörf sé á talsverðri fjölgun. Hann segir að Norður-Ameríku flugið sé áætlað til að auka nýtingu flugvélanna, en þannig er hægt að fljúga frá Bandaríkjunum til Íslands og þaðan áfram til Evrópu. Er það svipuð hugmyndafræði og Icelandair hefur nýtt á þessum leiðum. Mun félagið fljúga Ameríkuflugið á Airbus A321 vélum, en nýlega festi félagið kaup á tveimur slíkum vélum.

Tilkynna fleiri áfangastaði á næstu mánuðum

Hann segir að nú sé unnið að því að bæta fleiri stöðum í Norður-Ameríku við leiðarkerfið, en WOW hóf flug til Boston og Washington fyrr á þessu ári. Með þessu nái þeir ekki bara að auka úrval áfangastaða fyrri íslenska ferðamenn, heldur sé þetta ákjósanlegur kostur fyrir þá sem vilja ferðast á milli Evrópu og Bandaríkjanna.

„Við erum að stækka í ár um 50% frá því í fyrra og ætlum að gera það aftur á næsta ári,“ segir Skúli í samtali við mbl.is. Hann segir að á næstu 12 mánuðum þurfi félagið að ráða um 100 manns vegna þessarar aukningar, en þá verða starfsmenn félagsins orðnir 350 talsins.

Hefur ekki áhyggjur af vaxtaverkjum

Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að orðrómur væri uppi um að Icelandair ætlaði sér að fara til Montréal. Enn hefur þó engin tilkynning um slíkt komið frá félaginu. Aðspurður hvort að hann hafi ekki áhyggjur af mikilli samkeppni ef þessi félög fara bæði að fljúga til Montréal á sama tíma segir Skúli svo ekki vera. „Við höfum ekki áhyggjur af samkeppninni þar sem við teljum okkur geta boðið mun hagstæðari fargjöld en keppinautarnir,“ segir Skúli.

Eins og fyrr segir hóf WOW flug til Norður-Ameríku fyrr á þessu ári og nú er útlit fyrir að félagið muni stórauka flug sitt þangað á innan við einu ári. Ljóst er að félagið þarf að sækja á markhópinn þar, eins og á Íslandi og í Evrópu. Skúli segir, aðspurður um áhyggjur af of stóru stökki í þessum efnum, að félaginu hafi einmitt gengið mjög vel að selja miða gegnum heimasíðu sína og auglýsingar á netinu. Þá segist hann telja ljóst að eftirspurn sé eftir lágfargjaldamódelinu hjá WOW.

Bjó sjálfur í Montréal í 8 ár

Skúli þekkir sjálfur nokkuð vel til Montréal, en hann bjó í átta ár í borginni. Hann segir að hún hafi verið valin þar sem borgin sé ein af þremur stærstu borgum Kanada og þá sé flugvöllurinn einnig meðal þeirra stærstu. Hann segir að borgin bjóði upp á mikla sögu og menningu, en hún er undir frönskum áhrifum, enda í Quebec fylki.

Gert er ráð fyrir því að hægt sé að hefja sölu miða í haust, en þá munu formleg leyfi liggja fyrir. Skúli segir slíkt þó formsatriði eftir að umsóknin hafi verið lögð inn og ferlið í kringum það.

WOW ætlar að hefja flug til Montréal snemma á næsta …
WOW ætlar að hefja flug til Montréal snemma á næsta ári. Flogið verður 4-5 sinnum í viku á Airbus A321 vélum.
Skúli bregður á leik ásamt Daníel Snæbjörnssyni.
Skúli bregður á leik ásamt Daníel Snæbjörnssyni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert