Ætlar að verða allra kerlinga elst

Veiðiferðin í Laxá í Kjós breytti lífi Hildar Baldursdóttur til …
Veiðiferðin í Laxá í Kjós breytti lífi Hildar Baldursdóttur til hins betra og hún ákvað að vinna sem best úr því sem hún hefur.

„Kastað til bata“ er verkefni á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila, þar sem konum sem hafa lokið meðferð við brjóstakrabbameini er boðið til veiðiferðar sem hluti af endurhæfingu. 15 konur fóru í slíka veiðiferð fyrir skömmu og þar á meðal var Hildur Baldursdóttir.

„Það vinnur vel saman, að standa ein úti í náttúrunni og vera í samstilltum hópi kvenna sem hafa gengið í gegnum erfiða reynslu,“ segir hún. „Þetta breytti lífi mínu til hins betra.“

Hópurinn var saman við Laxá í Kjós í tvo sólarhinga. „Ég hafði aldrei snert á veiðistöng á ævinni og hélt því að þetta væri ekkert fyrir mig, en hugsaði með sjálfri mér að maður ætti alltaf að prófa eitthvað nýtt og ákvað að fara til þess að læra réttu tökin,“ segir Hildur um þátttökuna. „Þetta var ævintýraferð á allan hátt.“

Stóísk ró í ánni

Hildur fór í gegnum mjög erfiða krabbameinsmeðferð 2013, „lenti í fordyri helvítis“ eins og hún orðar það, og áréttar að margir hafi sannarlega lagt hönd á plóg til að létta það þunga ferli sem krabbameinsmeðferð og endurhæfing er. En það hafi komið sér á óvart hvað þessi veiðiferð skipti miklu. Þarna hafi sjálfboðaliðar verið í tvo sólarhringa og leiðbeint 15 konum sem hafi allar greinst með krabbamein. „Við töluðum einlægt og opinskátt um krabbameinið, skiptumst á sögum og miðluðum af reynslu okkar, en þess á milli stóð ég úti í á og æfði köst ein með ánni og náttúrunni. Þar kom yfir mig einhver stóísk ró og ég var tilbúin að horfa á lífið á annan hátt en áður. Ég kortlagði sjálfa mig og náði þeirri hugarró að sætta mig við það sem hafði gerst og ákvað að vinna sem best úr því sem ég hef, fullviss um það að ég ætla að verða allra kerlinga elst.“

Skömmu síðar fór Hildur í reglubundið eftirlit til krabbameinslæknis. Hún segist hafa sagt honum að hún tryði því að hann hefði læknað hana. „Ég sagði honum að ég hefði verið að skipuleggja jarðarförina mína frá því ég greindist í mars 2013 en nú væri ég steinhætt því og byrjuð að skipuleggja stórafmæli mitt eftir tvö ár.“

Hildur segist vita að margir komi að þessu verkefni og allir eigi þakkir skildar, ekki síst þeir sem hafi verið með hópnum. „Þetta var stórkostleg upplifun og það er freistandi að prófa að taka í stöng aftur,“ segir hún. „Nú skil ég veiðimenn sem geta staðið dögum saman úti í á. Þetta snýst ekki bara um að fá marga fiska.“

Mikilvægi sjálfboðaliða

Samtökin Almannaheill vinna að því að auka meðvitund í samfélaginu um mikilvægi almannaheillasamtaka og sjálfboðaliðastarfs. Þau eru einn af aðstandendum Fundar fólksins, þriggja daga hátíðar um samfélagsmál, sem hefst á hádegi í dag í Norræna húsinu. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar og í næsta nágrenni fram á laugardag. Almannaheill, sem samanstanda af 26 félögum, m.a. Krabbameinsfélaginu og Hjálparstarfi kirkjunnar, standa fyrir málþingi um mikilvægi frjálsra félagasamtaka í Norræna húsinu kl. 15 til 17 á morgun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert