Hundum haldið frá hinstu kveðju

Embla og Snorri voru afar náin.
Embla og Snorri voru afar náin. Ljósmynd/ Sirrý Birgis

„Hvernig á dóttir hans að geta skilið þetta? Hún er fjölskyldan okkar.“

Þetta segir Sirrý Birgisdóttir um tíkina Emblu en í gær var sonur Sirrýjar, Snorri Sigtryggsson, lagður til hinstu hvílu án þess að Embla fengi að vera viðstödd.

Snorri var aðeins 31 árs gamall og segir Sirrý hann hafa látist úr krabbameini í sálinni. Eðlilega sé fjölskyldan harmi slegin og að það eigi ekki síst við einkadóttur Snorra sem er 10 ára gömul.

Sirrý segir son sinn hafa verið mikinn dýravin og að allt frá unga aldri hafi ferfætlingar átt hug hans allan. Eins og áður sagði átti hann tíkina Emblu sem verður sjö ára í haust og er litið á hana sem fjölskyldumeðlim.

„Konuna hans og dóttur langaði að sjálfsögðu til að hundurinn fengi að vera með. Elsta systir hans hafði samband við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og athugaði hvort við gætum fengið að hafa hana með í garðinn,“ segir Sirrý. „En það er bara stranglega bannað og þeir voru ekki tilbúnir að beygja reglurnar til að lina sorgir 10 ára barns.“

Hefði mátt koma í kirkjuna

Sirrý kveðst afar reið og spyr fyrir hverja reglurnar séu settar. Segir hún Emblu sakna Snorra og að hún sitji oft við útidyrnar og bíði þess að hann komi heim úr vinnunni. Sirrý segir að eftir viðbrögðin frá Kirkjugörðunum hafi fjölskyldunni ekki komið til hugar að hafa samband við Grafarvogskirkju þar sem Snorri var jarðsunginn. Síðar hafi komið í ljós að Embla hefði getað fengið að vera við athöfnina í kirkjunni, en þó með undanþágu.

„Okkur datt ekki í hug að spyrja af því að við vitum að hundar eru hvergi velkomnir á Íslandi. Okkur datt kirkjugarðurinn í hug af því að hann er úti, hundurinn gæti verið í bandi og það yrði færra fólk.“ 

Sirrý segir bann við hundum í kirkjugörðum vera enn einn angan af fordómum gegn hundum í íslensku samfélagi. Bendir hún á að hesta og kattaeigendur þurfi ekki að þrífa upp eftir dýr sín þegar þau ganga örna sinna úti við, ólíkt hundaeigendum. Eins segir hún að ofnæmi sé ofnotað sem afsökun fyrir því að halda hundum frá almenningsrýmum.

„Af hverju eru Íslendingar svona hundafælin þjóð? Í útlöndum sérðu hunda allstaðar, inni í verslunum og almenningssamgöngum, og enginn er dáinn.“

Snorri og Sirrý.
Snorri og Sirrý. Ljósmynd/ Sirrý Birgis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert