Bíða samþykkis Samkeppniseftirlitsins

mbl.is

Á fimmtudaginn var undirritaður kaupsamningur Vefpressunnar á útgáfuréttinum á 12 blöðum sem Fótspor ehf hefur gefið út, meðal annars Reykjavík Vikublað og Akureyri Vikublað. Að sögn Ámunda Ámundasonar eiganda Fótspors var samningurinn undirritaður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar.

„Það hefur legið fyrir í tvö ár að ég mundi selja útgáfuréttinn. Fyrstu samskipti mín við Björn Inga voru þegar hann bauð mér fyrir tveimur árum að gerast auglýsingastjóri hjá fyrirtækinu hans en ég hafnaði því. Síðan eftir að hann keypti DV hafði hann aftur samband við mig og vildi kaupa útgáfuréttinn og var kaupsamningurinn undirritaður á fimmtudaginn,“ segir Ámundi í samtali við mbl.is. Hann mun nú taka við starfi sem auglýsingastjóri hjá félagi Björns Inga.

Hann segist áður hafa meðal annars reynt að selja útgáfuréttinn á einstökum blöðum, meðal annars bauð hann fyrirtækjum á Akureyri að kaupa réttinn að Akureyri Vikublaði. 

„Síðasta blaðið mitt kom út í gær, Reykjavík Vikublað í 50 þúsund eintökum. Þegar það var komið út tilkynnti ég öllum aðilum um að það kæmi ekkert blað út í ágúst. Kaupendurnir hafa svo í hyggju að gefa út blöðin aftur í byrjun september,“ segir Ámundi sem er nú á leið í kærkomið þriggja vikna frí til Spánar.

„Hjá Fótspor ehf hef ég verið að sjá um bókhaldið, samninga, auglýsingar og fleira. Það verður léttara starf hjá mér núna að verða bara aftur auglýsingastjóri eins og ég var áður til margra ára.“

Björn Ingi segir í tölvupósti til mbl.is að öll blöðin 12 muni áfram koma út en að Vefpressan muni ekkert koma að rekstri blaðanna fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur gefið grænt ljós á kaupin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina