Hlaupið sprengdi alla mælikvarða

Jökulhlaupið var allt að þrefalt stærra en stærstu hlaup áður.
Jökulhlaupið var allt að þrefalt stærra en stærstu hlaup áður. Rax / Ragnar Axelsson

Jökulhlaupið sem kom úr eystri Skaftárkatli og rann niður Skaftá og Eldvatn sprengdi alla mælikvarða sem höfðu áður verið til staðar fyrir slík hlaup og er talið að þegar rennslið hafi verið hvað mest hafi mælar ekki getað metið um þriðjung vatnsmagnsins sem rann úr katlinum. Á nýjum samanburðamyndum má sjá hversu gríðarlega umfangsmeira þetta hlaup var en fyrri hlaup árin 2008, 2006 og 1995. Það skal þó tekið fram að enn á eftir að leiðrétta mælinguna miðað við það sem vísindamenn telja vera raunrennsli, en gera má ráð fyrir að við Sveinstind sé talsvert vanmat, en við Eldvatn nokkuð ofmat á hæsta punktinum.

Hápunktur hlaupsins við Sveinstinda náði um 2.100 rúmmetrum á sekúndu …
Hápunktur hlaupsins við Sveinstinda náði um 2.100 rúmmetrum á sekúndu samkvæmt mælum. Í raun var rennslið þó mun hærra eða um og yfir 3.000 rúmmetrar á sekúndu. Mynd/Veðurstofa Íslands

Óðinn Þórarinsson, sérfræðingur í vatnamælingum hjá Veðurstofu Íslands, segir að taka verði þessum fyrstu tölum með miklum fyrirvara. Þannig sé rennslið við Sveinstind einungis metið út frá vatni sem rennur í farvegi við mælinn, en það er langt í frá allt vatnið sem kom úr hlaupinu í þetta skiptið. „Það á eftir að leggja mat á hversu mikið hefur runnið framhjá en fyrsta mat er að í hámarki hlaupsins hafi líkleg runnið yfir 3.000 rúmmetrar á sekúndu, en ekki 2.100 rúmmetrar á sekúndu líkt og grafið sýnir,“ segir Óðinn og bætir við að væntanlega sé vanmatið lítið í upphafi en aukist svo þegar líður á kúrfuna.

Óðinn segir hápunktinn á grafinu sem sýnir rennslismælingu við Ása …
Óðinn segir hápunktinn á grafinu sem sýnir rennslismælingu við Ása í Eldvatni vera örlítið ofmetinn, en að grafið sýni samt ágæta mynd af því hversu miklu stærra þetta hlaup hafi verið en fyrri hlaup. Mynd/Veðurstofa Íslands

Ferillinn við Ása (Eldvatn) sýnir að mati Óðins hins vegar ofmat á rennslinu, en hann segir það vera vegna þess að yfirfærsla á vatnshæðamælingum yfir í rennsli verði óvirk í svona miklu rennsli. Á grafinu kemur fram að rennslið í gilinu við Ása hafi verið tæplega 2.300 rúmmetrar á sekúndu, en Óðinn segir að líklegast hafi það ekki verið meira en 2.000 rúmmetrar.

Óðinn ítrekar að sérfræðingar Veðurstofunnar eigi enn eftir að yfirfara þessar tölur betur og því beri að taka öllum tölum með fyrirvara enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert