Getur fólk verið ólöglegt?

Fjölskylda á strönd Lesbos, stuttu eftir komuna yfir hafið frá …
Fjölskylda á strönd Lesbos, stuttu eftir komuna yfir hafið frá Tyrklandi. AFP

Vigdis Vevstad, einn helsti sérfræðingur Noregs í flóttamannarétti segir glæpavæðingu flóttafólks alvarlegt vandamál. Lokun landamæra neyði fólk á flótta til að brjóta gegn lögum til að bjarga sér og að oftar en ekki lendi það í höndum smyglara.

Nokkrir fremstu sérfræðingar Norðurlandanna í flóttamannarétti komu saman á fundi í Háskóla Íslands í síðustu viku. Var meðal annars rætt um orðræðu víða í álfunni um „ólöglega innflytjendur“ og ótta við hugsanlega hryðjuverkamenn. Þá voru einnig rætt hvernig aðgerðir á við ný lög og gaddavírsgirðingu á landamærum Ungverjalands neyði í raun stríðshrjáða einstaklinga til að fremja „glæpi“ til að lifa af.

„Ég held að hluti af vandanum sé sú staðreynd að löglegar leiðir  fyrir flóttafólk inn í Evrópu eru mjög fátæklegar,“ segir Vigdis. „Það að fækka löglegum leiðum yfir landamærin þýðir að flóttafólkið reynir að finna aðrar leiðir inn t.d. til að komast hjá því að vera skráðir. Það er vandamál því þar með hefur fólkið farið ólöglega inn í landið og er glæpavætt.“

Vigdis er lögfræðingur og hefur unnið með málefnum flóttamanna og innflytjenda í yfir 30 ár. Hún er ráðgjafi við mannréttindastofnun Óslóarháskóla og vinnur jafnframt að rannsóknum við félagsmálastofnun borgarinnar.

Þegar blaðamaður mbl.is spyr hvort það sé ekki óvenju mikið að gera hjá henni jánkar hún og segir nokkuð langt síðan Evrópa hafi þurft að horfast í augu við flóttamannakrísu.

„Ég hafna því þó að þetta sé krísa fyrir Evrópu, þetta er krísa fyrir fólkið sem þarf að flýja. Evrópa hefur bæði getuna, verkfærin og stofnanirnar sem til þarf til að takast á við ástandið en eins og við vitum hefur Evrópa, Ísland og Noregur, verið sein að bregðast við.“

Vigdis áréttar að þó svo að vandi flóttamanna geti virst fjarlægur Íslendingum og Norðmönnum séu þjóðirnar í Schengen sem felur í sér samstarf um sameiginleg ytri landamæri. Þannig standi flóttafólkið í raun á landamærum okkar þegar það neyðist til að brjóta þessi lög og leggja sig jafnvel í lífshættu.

„Fólk deyr,“ segir Vigdis. „Mörg þúsund manns hafa þegar dáið á þessu ári og við vitum að þetta hefur áhrif. Ég held að áskorunin fyrir Evrópu sé í raun sú að fá öll lönd til að skilja að það þarf að opna löglegar leiðir og möguleika.“

Órökrétt nýting á Dyflinnarreglugerðinni

Vigdis segir að annað sem glæpavæði flóttafólk séu reglur Schengen svæðisins um viðurlög við flutningi fólks án pappíra. Það þýði t.d. að reyni flóttamaður að yfirgefa heimaland sitt eða viðkomuland án tilskyldra skjala með flugi verði flugfélagið sektað. Það, sem og strangar reglur um vegabréf og vegabréfaáritanir, valdi því að fólk leitar annarra og hættulegri leiða.

„Ef þú ert flóttamaður og kemur frá stríðshrjáðu landi er mjög líklegt að Schengen lönd taki upp nýjar vegabréfa ráðstafanir ef þau hafa ekki gert það nú þegar. Það setur fólk í hendur smyglara. Við erum að skapa aðstæður fyrir glæpavæðinguna sem við viljum forðast. Þess vegna þurfum við að skapa löglegar leiðir.“

Vigdis nefnir mannúðaráritanir (e. humanitarian visas) sem eina slíka leið. Móttaka kvótaflóttafólks á vegum Sameinuðu þjóðanna sé önnur leið og að eins væri hægt að opna möguleika á tímabundinni vernd svo hægt sé að aðstoða fleira fólk hraðar.

Vigdis segir mótsagnakennt að á sama tíma og samþykkt hafi verið að deila 160 þúsund kvótaflóttamönnum niður á ríki Evrópusambandsins séu lönd enn að synja flóttafólki um hæli. Einn hluti Dyflinnarreglugerðarinnar taki vissulega til þess að fyrstu viðkomulöndum flóttafólks innan Schengen beri skylda til að taka fyrir hælisumsóknir þess en að það þýði ekki að önnur ríki geti ekki ákveðið að taka á móti fólkinu.

„Í tilfellum þar sem það væri skaðlegt að senda fólk til baka getur hvert land fyrir sig ákveðið hvort það vilji nota fullveldisákvæðið eða mannúðarákvæðið til að gera undantekningu frá þessari reglu,“ segir hún. Hún segir þau ákvæði eiga vel við núna þegar ljóst er að þörf er á að flytja fólk frá fyrstu viðkomulöndum sunnar í álfunni s.s. Grikkland og Ítalíu til annarra Evrópuríkja.

„Ef við segjum „Já, það má flytja það til annarra ESB ríkja“ virðist það heldur undarlegt að nýta sér Dyflinnarreglugerðina til að senda fólk frá norðri aftur til suðurs. Þá erum við með flugvélar fullar af flóttafólki að fara í báðar áttir og það er ekki mjög skynsamlegt. Því held ég að útfrá sjónarmiðum um samstöðu og sameiginlega ábyrgð sé nauðsynlegt að íhuga hvernig verið er að nota Dyflinnarreglugerðina.“

Vigdis Vevstad hefur tileinkað mestallri starfsævi sinni málefnum flóttafólks.
Vigdis Vevstad hefur tileinkað mestallri starfsævi sinni málefnum flóttafólks.
Þúsundir flóttamanna á öllum aldri hafa látist á flótta það …
Þúsundir flóttamanna á öllum aldri hafa látist á flótta það sem af er árinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert