Einn Íslendingur rannsakaður á Spáni

Kannabisplöntur. Myndin er úr safni.
Kannabisplöntur. Myndin er úr safni.

Aðeins einn Íslendingur var handtekinn í aðgerðum lögreglu á Suðaustur-Spáni fyrr á þessu ári í tengslum eina stærstu kannabisverksmiðju Evrópu, samkvæmt upplýsingum héraðsdóms Murcia-héraðs. Hann var upphaflega settur í farbann en er nú frjáls ferða sinna. Ákæra hefur enn ekki verið gefin út.

Upphaflega var sagt frá því um miðjan þennan mánuð að fjórir Íslendingar, ásamt fleirum, hefðu verið handteknir í tengslum við umfangsmikla maríjúanaræktun í Molina de Segura í Murcia-héraði á Suðaustur-Spáni. Handtökurnar áttu sér stað í febrúar á þessu ári.

Samkvæmt upplýsingum héraðsdóms Murcia (Tribunal superior de justicia) var hins vegar aðeins einn Íslendingur handtekinn. Hann er sagður á sextugsaldri og einn höfuðpaura ræktunarinnar. Nafn hans sé skráð fyrir húsnæðinu þar sem ræktunin fór fram.

Hann hafi í fyrstu verið sviptur vegabréfi til öryggis en hann sé nú frjáls ferða sinna. Rannsókn málsins standi enn yfir en hún beinist að fíkniefnasölu og þjófnaði á rafmagni. Lögreglan komst á snoðir um starfsemina eftir að fyrirtæki í nágreninu höfðu tilkynnt um rafmagnstruflanir. Þá kom í ljós að verksmiðjan hafði sótt sér rafmagn ólöglega.

Héraðsdómurinn segir að þegar rannsókninni ljúki verði ákæra annaðhvort gefin út eða þess óskað að gögn hennar verið geymd. Ekki liggur fyrir hvenær henni lýkur eða hvenær dómsmál gæti mögulega hafist í kjölfarið.

Rafmagn kom lögreglu á sporið

Fjórir Íslendingar handteknir á Spáni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert