„Íslendingar gefast ekki upp“

Satu Rämö er rithöfundur, bloggari og margt annað en hún …
Satu Rämö er rithöfundur, bloggari og margt annað en hún býr og starfar á Íslandi og hefur gert undanfarin átta ár. Ljósmynd Björgvin Hilmarsson

Rithöfundur, verslunareigandi, blaðamaður, bloggari með háskólamenntun í hagfræði og íslensku. Allt þetta á við Satu Rämö. Hún er finnsk en hefur búið á Íslandi um árabil og rekur fyrirtæki hér á landi.

Satu, sem er 35 ára gömul, kom fyrst til Íslands árið 2003 sem skiptinemi við Háskóla Íslands en þá var hún nemandi í hagfræði við Viðskiptaháskólann í Helsinki. Á þessum tíma voru ekki margir áfangar við hagfræðiskor HÍ kenndir á ensku þannig að hún sótti tíma í þjóðfræði og fleiri námsleiðum. Hún viðurkennir að þetta hafi hins vegar ekki vakið mikla lukku hjá prófessornum í hagfræðinni í Helsinki sem sá lítið samhengi með hagfræði og íslenskum þjóðsögum.

Að sögn Satu heillaðist hún fljótt af Íslandi og þegar hún var í sinni fjórðu heimsókn hingað til lands kynntist hún Björgvini Hilmarssyni. Þau smullu saman og ferðum til Íslands fjölgaði hratt. Þau hófu síðan búskap á Spáni þar sem þau bjuggu í tvö ár en fluttu til Íslands árið 2008. Það sama ár keyptu þau íbúð og Satu gefur út sína fyrstu bók, ferðabók um Ísland á finnsku. Bókin varð strax vinsæl enda margir Finnar spenntir fyrir Íslandi.

Satu segir að ef eitthvað er þá hafi áhugi Finna á Íslandi aukist enn frekar og má meðal annars rekja það til eldgossins í Eyjafjallajökli þegar Ísland var á allra vörum vegna áhrifa gossins á flugsamgöngur í heiminum.

Ekki áhuga á þessu hefðbundna

Eftir að Satu lauk námi í hagfræði vann hún hefðbundna vinnu í Helsinki í eitt ár en fann fljótt að hún hefði áhuga á einhverju allt öðru. Hún stofnaði því fyrirtæki þar sem hún sá um almannatengsl fyrir fyrirtæki auk annarra verkefna. Eftir að hún flutti til Íslands skráði hún fyrirtækið á Íslandi.

„Þannig að ég hef haldið áfram að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ég er ánægð með hvað allt hefur gengið vel og mér finnst frábært að búa á Íslandi. Auðvitað fylgja bæði kostir og gallar en ég sakna þess ekki að búa í Finnlandi. Mér finnst gott að fara þangað reglulega bæði út af vinnu og fjölskyldu en það er svo mikið í gangi á Íslandi. Íslendingar eru svo duglegir að framkvæma og láta sjaldan eitthvað stöðva sig. Já það er gríðarleg orka hér,“ segir Satu.

Eftir að kreppan skall á hér á landi haustið 2008 jókst mjög áhugi finnskra fjölmiðla á fréttum frá Íslandi enda rík tengsl milli landanna og Satu vann fyrir fjölmarga miðla þar í landi þar sem hún skrifaði um efnahagsmál ofl. héðan frá Íslandi. Á þessum tíma var kreppan ekki farin að bíta jafn mikið þar eins og hér þannig að Finnar höfðu áhuga á kreppusögu Íslendinga.

 Verð  að skilja hvað kemur fram í fréttum

Satu talar mjög góða íslensku og aðspurð segir hún að forsenda fyrir því að setjast einhvers staðar að annars staðar en í heimalandinu sé að aðlagast. Þar á meðal að læra tungumálið. Hún byrjaði í íslenskunámi fyrir útlendinga hjá Mími en fór síðan í BA-nám í íslensku við Háskóla Íslands og lauk því námi fyrir tveimur árum. „Mig langaði að geta skrifað og lesið á íslensku þannig að ég skildi umræðuna í fjölmiðlum. Þar sem ég vinn við skrif þá verð ég að skilja hvað kemur fram í fréttum,“ segir Satu.

Hún bendir á að ef fólk ætlar sér að taka almennilega þátt í samfélagi og kynnast fólki þá sé nauðsynlegt að geta tjáð sig á tungumáli heimafólks, ekki síst í jafn litlu samfélagi og Ísland er. Það hafi auðvitað tekið á að stunda fullt nám við HÍ með annarri vinnu en verið vel þess virði.

Hún á og rekur Finnsku búðina ásamt tveimur öðrum finnskum konum sem kynntust í Norræna húsinu á sínum tíma en þar hittast Finnar með börn sín þar sem lesið er upp úr finnskum barnabókum. Satu og Björgvin eiga tvær dætur, Sögu sem er fimm ára og Sælu sem sem er sex vikna gömul.

Fara íslensku leiðina

Finnsk hönnunarvara er vinsæl hér á landi sem og annars staðar og þær ákváðu að prófa að opna búð á Laugaveginum. „Við ákváðum að fara íslensku leiðina,“ segir Satu og hlær. „Við opnuðum búð og ákváðum að sjá til hvernig tækist til. Ef illa gengi þá myndum við loka búðinni. En raunin er sú að það hefur gengið vel og við höfum opnað aðra Finnska búð í Kringlunni.“

Um síðustu helgi tók Satu við verðlaunum fyrir nýjustu bók sína Islantilainen voittaa aina (Íslendingur vinnur alltaf) en hún fjallar um Ísland og upplifun Satu af landinu, líf hennar hér og hvernig er að starfa á Íslandi. Eins er þar að finna reynslusögur vina og kunningja úr hruninu.

Í bókinni er einnig fjallað almennt um hrunið og efnahagsmál landsins. Satu tók viðtöl við nokkra Íslendinga í bókinni. Til að mynda Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, Friðrik Má Baldurssson, hagfræðiprófessor, Arnald Indriðason, rithöfund og Elínu Flygenring fyrrverandi sendiherra Íslands í Finnlandi sem bjó lengi í Finnlandi og þekkir vel muninn á milli landanna tveggja.

Verðlaunin eru í flokki ferðabóka (vuoden matkakirja) í óeignlegri merkingu þess orðs því þetta á við bækur þar sem fjallað er um staði, þjóðfélög og menningu. Bók Satu var valin sú besta í þessum flokki í ár og tók hún við verðlaununum á stærstu bókaráðstefnu Finnlands, Helsingin Kirjamessut í Helsinki.

Björgvin tók myndirnar í bókinni líkt og hann gerir í öðrum bókum hennar en hann er mikill áhugamaður um ljósmyndum.

Björgvin er leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum en þau hjón ferðast mikið um landið og oft utan alfaraleiða.

Ólíkt hafast þjóðirnar að 

Í bókinni eru fjölskyldutengsl eitt af því sem hún nefnir en Finnar og Íslendingar hafast þar mjög ólíkt að. Til að mynda er mikil frændsemi hér sem sést einna best í ættarmótshefðinni þar sem fjölmargir ættingjar koma saman og allt í einu áttu hundrað frændur og frænkur sem þú hafðir ekki hugmynd um að væru til.

Satu hefur einnig skrifað tvær bækur um meðgöngu og móðurhlutverkið og segir að þær séu í gamansömum tón þar sem hún lýsir reynslu sinni af því að verða móðir (Vuoden Mutsi 1 og 2), þar sem fjallað er um þá hlið barneigna og uppeldis sem ekki sést í glanstímaritum og í umræðunni.

Satu er með bloggsíðu þar sem hún skrifar fréttir og frásagnir af Íslandi og segir hún að það form henti sér mjög vel enda minna að gera í skrifum fyrir finnska fjölmiðla nú en fyrir nokkrum árum. Þar sé kreppa og niðurskurður allsráðandi á fjölmiðlum og víðar. Um 28 þúsund manns fylgjast með blogginu hennar en hún er einnig virk á samfélagsmiðlum við að kynna Ísland fyrir Finnum, meðal annars fyrir íslensku snyrtivörurnar Bioeffect. Eins hefur hún unnið fyrir Skyr Finland við textaskrif o.fl. í Finnlandi þar sem skyr nýtur gríðarlegra vinsælda.

Sveigjanleikinn eitt af aðalsmerkjum Íslendinga

Satu segir að sér hafi hundleiðst að sinna bara 9-5 vinnu í Finnlandi og það eigi miklu betur við hana að vasast í mörgu eins og hún er að gera núna. „Hér þykir það líka svo eðlilegt að sinna mörgu en í Finnlandi er meiri regla á öllu. Svo er það þessi sveigjanleiki sem er á Íslandi sem kom berlega í ljós þegar allt fór í kaldakol í efnahagsmálum landsins haustið 2008. Þá brettu Íslendingar upp ermarnar og tókust á við eitthvað annað. Til að mynda blómstrar ferðaþjónustan hér sem aldrei fyrr og fólk skiptir óhikað um starfsvettvang. Ef þú ert menntaður sálfræðingur og missir vinnuna þá er ekkert að því að ráða sig í vinnu á bar. En í Finnlandi þá myndir þú leggjast í þunglyndi, sitja heima og barma þér,“ segir Satu.

Framhald verðlaunabókarinnar í bígerð

Að sögn Satu leigir hún vinnuaðstöðu á Laugavegi ásamt fleiri rithöfundum, hönnuðum og textagerðarfólki og segir hún gott að skilja að heimili og vinnu. Hún er í fæðingarorlofi núna en er þegar byrjuð að leggja drög að næstu bók sem verður sjálfstætt framhald af verðlaunabókinni.

„Næsta bók verður um Ísland eftir hrunið og hvernig okkur hefur miðað áfram. Nú þekki ég allt betur og hef séð hvernig okkur hér á Íslandi hefur vegnað á sama tíma og það er kreppa víða annars staðar í Evrópu. Finnar glíma við margvísleg vandamál og mörg þeirra eru kunnugleg okkur sem búum á Íslandi. Til að mynda er menntað fólk að flytja frá Finnlandi sem var vandamál hér líka. En Íslendingar gefast ekki upp og leggjast í þunglyndi eins og stundum vill vera í Finnlandi. Ég held að Íslendingar mættu síðan læra annað af Finnum. Til að mynda að skipuleggja sig betur á meðan Finnar mættu fá brot af aðlögunarhæfni Íslendinga, orkunni og kæruleysinu sem hér ríkir,“ segir Satu Rämö og hlær.

Þau Björgvin vinna mikið saman því hann bæði myndar fyrir bækur hennar og greinarskrif og eins hafa þau tekið á móti finnskum hópum sem ekki hafa áhuga á að fara í hefðbundnar ferðir hér á landi. Eða eins og Björgvin segir: „Það má segja að Satu sé eins og menningarleg brú milli Íslands og Finnlands því hún hefur bæði kynnt Ísland fyrir Finnum og eins Finnland fyrir Íslendingum.“

Satu Rämö og Björgvin Hilmarsson fara oft í ferðir utan …
Satu Rämö og Björgvin Hilmarsson fara oft í ferðir utan alfaraleiða Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Guðrún Guðmundsdóttir, móðir Björgvins, Satu Rämö, Saga Björgvinsdóttir og Björgvin …
Guðrún Guðmundsdóttir, móðir Björgvins, Satu Rämö, Saga Björgvinsdóttir og Björgvin Hilmarsson Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö
Satu Rämö Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Mæðgurnar Satu Rämö og Saga Björgvinsdóttir
Mæðgurnar Satu Rämö og Saga Björgvinsdóttir Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö tók við verðlaunum fyrir bókina í Helsinki
Satu Rämö tók við verðlaunum fyrir bókina í Helsinki Björgvin Hilmarsson
Satu
Satu Björgvin Hilmarsson
Forsíðan á bók Satu Islantilainen voitta aina (Íslendingur vinnur alltaf)
Forsíðan á bók Satu Islantilainen voitta aina (Íslendingur vinnur alltaf)
Satu Rämö og dóttir hennar Saga Björgvinsdóttir
Satu Rämö og dóttir hennar Saga Björgvinsdóttir Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö
Satu Rämö Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö
Satu Rämö Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Þau Satu Rämö og Björgvin Hilmarsson deila ferðaáhuganum og hafa …
Þau Satu Rämö og Björgvin Hilmarsson deila ferðaáhuganum og hafa ferðast víða. Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Björgvin tekur myndirnar í bókum Satu
Björgvin tekur myndirnar í bókum Satu Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö
Satu Rämö Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Fjölskyldan
Fjölskyldan Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö starfar og býr í miðborginni og segir það …
Satu Rämö starfar og býr í miðborginni og segir það mikinn kost að geta gengið eða hjólað til og frá vinnu. Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
Satu Rämö er finnsk en býr og starfar á Íslandi.
Satu Rämö er finnsk en býr og starfar á Íslandi. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Þær eru þrjár sem eiga Finnsku búðina
Þær eru þrjár sem eiga Finnsku búðina mbl.is
Ljósmynd Björgvin Hilmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert