Verða varðveittir í bílakjallara

Hafnargarðar sem grafnir voru upp við Reykjavíkurhöfn verða varðveittir í bílakjallara bygginganna sem til stendur að reisa á svæðinu. Þetta er niðurstaða viðræðna á milli Minjastofnunar og Landstólpa þróunarfélags. Annar hafnargarðurinn er frá því fyrir aldamótin 1900 og er því sjálfkrafa friðaður en hinn, sem er frá 1928, var skyndifriðaður fyrr á árinu.

„Farið var að leita lausna í kjölfar þessarar friðunar hvernig best væri að vernda hafnargarðana þannig að allir gætu unað vel við,“ segir Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa þróunarfélags, í samtali við mbl.is. Markmiðið hafi einfaldlega verið að finna lausn á málinu þannig að hægt væri að halda framkvæmdum áfram en um leið tekið tillit til verndarsjónarmiða.

Hafnargarðarnri verða sýnilegir í bílakjallaranum og ennfremur frá göngugötum í gegnum gler að sögn Gísla. Við framkvæmdirnar verða garðarnir fjarlægðir og teknir í sundur. Þeim verður síðan komið fyrir aftur fyrir undir eftirliti Minjastofnunar, fornleifafræðings og sérfræðings í hleðslum. Þannig verði kostnaðurinn brot af því sem áður hafi verið gert ráð fyrir.

„Með þessu verður aðgangur almennings að hafnargörðunum tryggður í stað þess að þeir verði ofan í einhverjum síkjum undir byggingunum. Þannig að þetta er að öllu leyti góð lausn þar sem tekið er tillit til allra hagsmuna. Samstarf Minjastofnunar og Landstólpa þróunarfélags hefur þannig leitt til farsællar lausnar sem allir lögðu sig fram við að finna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert