Ekkert ferðaveður

Í flestum landshlutum er vonskuveður og vegir meira og minna ófærir eða lokaðir. Mokstur er hafinn á láglendi en beðið er með mokstur á fjallvegum. Allur akstur er bannaður um Kjalarnes og Mosfellsheiði en þar er ekkert ferðaveður.

Að sögn Veðurstofu Íslands er úttlit fyrir norðanstórhríð um allt norðanvert landið með morgninum, en úrkomulítið syðra þótt víða megi búast við skafrenningi. Það má hins vegar búast við að verði slyddukennt á A-landi framan af degi.

Það fer að draga úr veðurhæð og ofankomu seint í dag og með kvöldinu, fyrst V-lands en reikna má með áframhaldandi hvassviðri austast á landinu fram á morgundaginn.

Það verður orðið skaplegt veður víðast hvar á morgun og léttir til, en búast má við einhverjum éljum NA-lands framan af degi. Seinnipartinn á morgun og um kvöldið fer síðan að hvessa úr suðaustri og þykknar upp V-lands, en vindur þá orðinn hægur fyrir austan og bjart veður. Það er síðan útlit fyrir mjög hvassa austanátt og talsverða úrkomu á mánudag og einnig líkur á hláku S-til á landinu.

Færð og aðstæður

Allur akstur er bannaður um Kjalarnes og Mosfellsheiði en þar er ekkert ferðaveður.

Þæfingur og mikill skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut. Lögregla á höfuðborgarsvæðinu beinir tilmælum til fólks í Grafarvogi og Grafarholti um að halda sig innandyra fram eftir degi vegna veðurs og ófærðar á svæðinu. Björgunarsveitir eru að störfum. Suðurstrandarvegur er lokaður. Þæfingur og snjóþekja er á Suðurlandi en ófært er frá Markarfljóti og austur að Kirkjubæjarklaustri.

Fróðárheiði er ófær og þungfært er á norðanverðu Snæfellsnesi. Þungfært er einnig á Holtavörðuheiði en Brattabrekka er ófær. Hálka og stórhríð er víða á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er ófært á öllum fjallvegum, hvassviðri og stórhríð.

Vonskuveður er einnig á Norðurlandi með skafrenningi og snjókomu. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Ófært og stórhríð er á öllum fjallvegum.

Á Austurlandi er ófært á flestum fjallvegum en snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal og Oddsskarði. Þæfingur og snjóþekja er með suðausturströndinni.

Ábendingar frá veðurfræðingi

Óveðurslægðin djúpa er nú skammt fyrir austan land og veldur norðanstormi um mikinn hluta landsins. Veður tekur ekki að skána fyrr en hún fjarlægist í kvöld og nótt. Stórhríðarveður verður því víðast um norðanvert landið í allan dag, en skafrenningur og blint sunnantil. Á Kjalarnesi er byljótt, hviður yfir 35 m/s og afar blint. Lægir þar lítið eitt eftir kl. 15, en þó ekki að gagni fyrr en í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert