Takast á um frávísun í febrúar

Björgólfur Thor Björgólfsson vill að málinu verði vísað frá. Tekist …
Björgólfur Thor Björgólfsson vill að málinu verði vísað frá. Tekist verður um það í dómsal í febrúar á næsta ári. mbl.is/RAX

Málflutningur um kröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar um að hópmálsókn á hendur honum verði vísað frá dómi mun fara fram 11. febrúar nk. Þetta var ákveðið við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Alls standa 269 einstaklingar og fyrirtæki á bak við málsóknina. Enn bætist í hópinn.

Málið gegn Björgólfi var þingfest 27. október sl. Í stefnu máls­ins seg­ir að fé­lags­menn séu all­ir í þeirri stöðu að hafa orðið fyr­ir tjóni vegna þess að þeir áttu hluta­bréf í Lands­bank­an­um sem urðu verðlaus hinn 7. októ­ber 2008 og að þeir hafi verið í þeirri stöðu vegna sak­næmr­ar hátt­semi Björgólfs.

Þeir hefðu ekki kært sig um að vera hlut­haf­ar ef upp­lýst hefði verið að Lands­bank­inn lyti stjórn Sam­son, og hefði átt að telj­ast móður­fé­lag hans, og ef upp­lýst hefði verið um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar bank­ans til Björgólfs.

Jóhannes Bjarni Björnsson, sem fer fyrir hópmálsókninni, segir í samtali við mbl.is, að fjallað hafi verið um frávísunarkröfu Björgólfs við fyrirtökuna í dag, en það var ákveðið að málflutningur um hana muni fara fram 11. febrúar, sem fyrr segir.

Aðspurður segir Jóhannes að enn sé að bætast í hóp þeirra sem standa á bak við hópmálsóknina. „Það bættust við nýir aðilar í morgun. Í rauninni er alveg hægt að vera með alveg fram að því að málið er tekið til dóms,“ segir Jóhannes.

Hann bætir við að eftir því sem tíminn líði þá sé meiri hætta á því að kröfur aðila fyrnist. „Þú rýfur ekki fyrningu fyrr en þú ert með,“ segir hann ennfremur.

Björgólfur fór fram á að málinu yrði vísað frá við fyrirtöku í héraðsdómi 18. nóvember síðastliðinn m.a. á þeim grundvelli að málatilbúnaðurinn væri ekki með réttum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert