3.300 jólakveðjur lesnar í ár

Anna Sigríður við lesturinn.
Anna Sigríður við lesturinn. mbl.is/Styrmir Kári

Sumar hefðir deyja út á nýjum tímum og með tilkomu nýrrar tækni en jólakveðjurnar á Rás 1 eru ekki þeirra á meðal. Ef eitthvað hafa kveðjurnar vaxið í vinsældum og í ár munu þulir Ríkisútvarpsins lesa fleiri jólakveðjur en nokkru sinni fyrr; 3.300 talsins.

„Það var rosalegt skot í þessu í fyrra og aukning um 20% sem er gríðarlega mikið,“ segir Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri RÚV um þróun mála. Í fyrra voru lesnar yfir 3.200 kveðjur en árið 2013 voru kveðjurnar heldur færri eða 2.700.

Það sem hefur breyst er m.a. það að síðastliðin ár hefur verið hægt að senda inn kveðjur gegnum netið en aukningin er engu að síður merkileg, sérstaklega í ljós þess að á sama tíma var ákveðið að kippa fyrirtækjunum út fyrir hinn hefðbundna lestrartíma.

„Það sem hefur gerst síðustu ár er að við höfum hreinsað mikið fyrirtækjakveðjurnar út úr þessu, þannig að þær eru í lágmarki. Þær fara inn í þessa samlestrartíma, eru lesnar fyrir fréttir á daginn, en eru ekki í þessum hefðbundna jólakveðjutíma,“ útskýrir Einar Logi.

Hann segir það koma sumum á óvart að þeir sem senda jólakveðjur gegnum útvarpið eru á öllum aldri. „Það er miklu yngra fólk sem sendir kveðjur en margur hyggur,“ segir hann.

Jólakveðjuteymið, utan Gerðar G. Bjarklind.
Jólakveðjuteymið, utan Gerðar G. Bjarklind. mbl.is/Styrmir Kári

Lokað var fyrir móttöku kveðja á miðnætti í nótt en frá og með deginum í dag hefur verið opnað fyrir móttöku áramótakveðja. Einar gerir ráð fyrir að lestri jólakveðjanna muni ljúka rétt fyrir miðnætti í kvöld, en þá munu þulirnir hafa lesið ríflega 71.000 orð á 17 klukkustundum.

„Og hvernig er þá staðið að lestrinum?“ spyr sá sem ekki veit.

Einar á svar við því.

Þulirnir eru sex, fjórar konur og tveir karlar. Auk hinnar ómissandi Gerðar G. Bjarklind, sem les nú jólakveðjur í fertugasta og fyrsta sinn, láta reyna á raddböndin Sigvaldi Júlíusson, Anna Sigríður Einarsdóttir, Sigrún Hermannsdóttir, Atli Freyr Steinþórsson og Stefanía Valgeirsdóttir.

Hvert les í 10 mínútur í senn og er lotunum skipt upp með lagi.

Þá vitum við það!

mbl.is

Bloggað um fréttina