Slegist fyrir utan skyndibitastað

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Kl. 5:48 í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála fyrir utan skyndibitastað í miðborginni. Þegar lögreglan kom á vettvang var starfsmaður staðarins með karlmann í tökum fyrir utan staðinn en sá hafði reynt að sníkja sér frían mat inni á staðnum og ekki viljað yfirgefa hann þannig að starfsmaðurinn færði hann út fyrir.

Á meðan lögreglumenn voru að starfa á vettvangi hóf annar karlmaður sem staddur var inni á staðnum að hrópa ýmsum fúkyrðum að starfsmanninum þannig að til stimpinga kom þeirra á milli. Starfsmaðurinn dró sig fljótlega til hlés þegar að lögreglumennirnir gáfum þeim fyrirmæli um að hætta en karlmaðurinn varð enn æstari, segir í dagbók lögreglu.  Þegar færa átti hann í tök þá gaf hann einum lögreglumanninum högg í andlitið með öðrum olnboga sínum. Karlmaðurinn var svo handtekinn og vistaður í fangaklefa þangað til hann verður yfirheyrður.

Í dagbók lögreglu kemur fram að nokkuð hafi verið um tilkynningar um pústra á milli fólks í miðborginni milli klukkan 5 og 7. Voru flest málin yfirstaðin þegar lögreglu bar að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert