Ríkið ráðstafar 250 milljónum til aðstoðar við flóttafólk

AFP

 Tveimur stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar hefur verið falið að ráðstafa þeim 250 milljónum króna sem ríkisstjórnin samþykkti sem aukaframlag til mannúðarmála á fjáraukalögum seint á síðasta ári. Ákveðið var að fjármagninu skuli varið til að styðja við bakið á flóttafólki, einkum frá Sýrlandi.

Hæstu framlögin fara til Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þá segir, að framlagið til OCHA nemi 98 milljónum króna og renni allt í neyðarsjóð fyrir Líbanon þar sem mikil þörf séá aðstoð vegna vaxandi fjölda flóttafólks frá Sýrlandi. Þetta framlag geri það að verkum að Ísland sé meðal sex helstu styrktaraðila í sjóðinn, en hinir eru Belgía, Holland, Þýskaland, Danmörk og Svíþjóð. UNHCR fær síðan 80 milljónir króna vegna flóttamanna frá Sýrlandi. Rauði kross Íslands ráðstafar 52 milljónum króna til að efla neyðarheilbrigðisþjónustu fyrir Sýrlendinga á flótta innan landamæra Líbanons og Hjálparstarf kirkjunnar fær 20 milljónir króna vegna stuðnings við flóttafólk í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.

Svara kalla Sýrlendinga

Þá kemur fram, að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segi fyllstu ástæðu til að veita fé til stofnana og félagasamtaka sem veiti sýrlensku flóttafólki mannúðaraðstoð á vettvangi. Neyðin sé mest þar, enda þótt umfang vandans kalli sannarlega á að ríki heims bregðist við með margvíslegum hætti, eins og tillögur ríkisstjórnarinnar frá því í september geri ráð fyrir.

„Með því að ráðstafa fjármagninu á þennan hátt erum við að svara kalli Sýrlendinga sjálfra en einnig nágrannaríkjanna, Líbanons og Jórdaníu, sem hafa mátt axla miklar byrðar vegna komu hundruð þúsunda Sýrlendinga yfir landamærin,“ er haft eftir Gunnari Braga.

Ennfremur segir, að aukaframlagið í fjáraukalögum fyrir árið 2015 hafi verið hluti af tillögum ráðherranefndar ríkisstjórnarinnar um málefni flóttafólks og innflytjenda frá því í september en þær fólu í sér að tveimur milljörðum króna verði varið í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur á tveggja ára tímabili til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna fjölgunar flóttamanna frá Sýrlandi. Allt að 950 milljónir króna komu til úthlutunar með fjáraukalögum fyrir árið 2015 og var utanríkisráðuneytinu falið að úthluta 250 milljónum króna af þeirri upphæð til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna að því að aðstoða flóttafólk á vettvangi.

Á þessu ári koma 500 milljónir til úthlutunar. Unnið er að tillögum í utanríkisráðuneytinu um það hvernig því fjármagni verður ráðstafað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert