Vildi bætur vegna gæsluvarðhalds föður

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu sonar manns sem var sýknaður af ákæru um að hafa átt aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás og kynferðisbroti, um að fá 5 milljónir króna í skaðabætur vegna þess tjóns sem það olli honum að faðir hans var handtekinn á sínum tíma. Stefnandi var þriggja ára gamall þegar þetta var.

Faðir hans var handtekinn 13. janúar 2012 vegna gruns um aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás og kynferðisbroti og vistaður í fangaklefa eftir yfirheyrslu. Hann var svo úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. janúar 2012, sú vist framlengd þann dag til 16. febrúar 2012, og aftur til 14. mars 2012. Þann dag gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur honum og fleiri aðilum og framlengdi enn á ný gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum til 11. apríl 2012. 

Föður stefnanda var síðan haldið samfellt í gæsluvarðhaldi, að frátöldum dögunum 6. til 8. júní, á grundvelli fjögurra dómsúrskurða, allt til 20. júní 2012 en þann dag var dómur í máli hans kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. Þar var hann sýknaður ásamt öðrum sem og í Hæstarétti. 

Í kröfu lögmanns sonar mannsins kemur fram að gæsluvarðhaldsvist svo nákomins ástvinar feli í sér miska fyrir hlutaðeigandi. Þá hafi bæst við einangrunarvist hluta tímans, sem olli enn meiri miska.

Heimilislíf hans hafi breyst verulega á þeim tíma sem rannsóknaraðgerðum var beitt gagnvart föður hans. Fjarvera föðurins hafi valdið honum miklum kvíða, angist og vanlíðan. Þá hafi allt málið fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum sem hafi aukið á erfiðleikana og miskann. Það hafi verið mikið áfall fyrir stefnanda, aðeins þriggja ára gamlan, að missa föður sinn út af heimilinu, segir ennfremur en sami lögmaður hefur einnig höfðað sambærilegt mál fyrir hönd systur unga drengsins.

„Við mat á miska stefnanda telur hann að horfa eigi til þess hversu langan tíma faðir hans sætti gæsluvarðhaldi sem og þeirra aðstæðna sem honum var boðið upp á í gæsluvarðhaldinu. Með vísan til framlagðra gagna telur stefnandi að gæsluvarðhaldsvist í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg falli undir ómannúðlega og vanvirðandi meðferð skv. 1. mgr. 68. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 33/1944, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að vita af föður sínum í slíkri vistun hafi leitt af sér mikla angist og kvíða fyrir stefnanda.

 Þá vísar stefnandi til þess að fjölmiðlaumfjöllun um rannsóknaraðgerðir og réttarhöld gagnvart föður hans hafi verið gegndarlaus í hvers konar miðlum og faðir hans iðulega nafngreindur og birtar af honum myndir, samanber framlögð gögn. Auk þess hafi fréttir verið fluttar af því að mikill viðbúnaður væri ávallt við fyrirtökur málsins hjá dómstólum og sérsveit ríkislögreglustjóra fengin til þess að sjá um flutning föður stefnanda. Þessi umfjöllun hafi leitt til þess að allt nærumhverfi stefnanda vissi af því að faðir hans var grunaður og síðar ákærður fyrir aðild að hrottalegri líkamsárás og nauðgun en það tók mikið á stefnanda,“  segir í kröfu drengsins sem er væntanlega á sjöunda aldursári núna.

Íslenska ríkið mótmæli öllum fjár- og vaxtakröfum drengsins. Sérstaklega var mótmælt kröfu um miskabætur vegna fjölmiðlaumfjöllunar um rannsóknaraðgerðir lögreglu og réttarhöld, en íslenska ríkið geti ekki borið ábyrgð á slíku gagnvart drengnum þar sem ríkið á ekki aðild að umfjöllun fjölmiðla um málið.

Í þessu máli var horft til þeirrar meginreglu íslensks skaðabótaréttar að einungis sá sem tjónsatburður bitnar beint á geti krafist bóta. það getir verið talið, með réttu eða röngu í þágu rannsóknar málsins, að hlera síma, íbúð, vinnustað eða bifreið, vegna rannsóknar á máli sem varðar þann sem fyrir verður ekki beint. Hið sama gæti gilt um haldlagningu á eigum eða hlutum sem fólk hefur afnot af, svo dæmi séu tekin. Atvik þyrftu því að vera með þeim hætti að aðgerðir í þágu rannsóknar máls yrðu taldar nauðsynlegar beinlínis, gagnvart aðila sem ekki væri þó borinn sökum í máli, til að varpa ljósi á þátt þess sem sakaður væri.

Hér er hægt að lesa dóminn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert