Festibolti losnaði í flotkví

Flotkvíin í Hafnarfjarðarhöfn í dag. Skipið Magni bíður átekta.
Flotkvíin í Hafnarfjarðarhöfn í dag. Skipið Magni bíður átekta. mbl.is/Golli

Festibolti í flotkví Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfjarðarhöfn losnaði í gær en skipið Sóley, sem er í eigu Björgunar, er í flotkvínni og bíður þess að verða sett á flot. Slæmt veður var í nótt og verður áfram í dag. 

„Það bilaði festibolti og þá losnaði dokkinn að hálfu leyti. Það fór fram bráðabirgðaviðgerð í nótt og verður skipinu komið á flot í nótt en svo verður farið í alvöruviðgerð þegar veðrið lægir,“ segir Eiríkur Ormur Víglundsson forstjóri vélsmiðjunnar. 

Skipið Magni hefur verið á staðnum í dag og veitt aðstoð. „Hafnarfjarðarhöfn er ekki með vakt allan sólarhringinn. Magni var á leið frá Helguvík þannig að við fengum hann til að koma og hjálpa okkur. Hann verður hér svo áfram. Þetta er bara til þess að við getum verið örugg um að ekkert geti komið upp á,“ segir Eiríkur og bætir þeir hafi nú stjórn á aðstæðum og að beðið sé eftir að veðrið lægi og hægt verði að koma Sóleyju á flot. 

„Þetta er bara óhapp sem enginn gat séð fyrir. En það breytir því ekki að boltinn á að halda í öllum veðrum. Hann hefur verið í flotkvínni frá því að hún var smíðuð, í ein 16 eða 17 ár, og þetta hefur aldrei komið fyrir áður,“ segir Eiríkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert