24 staðir taldir varasamir

Ferðamenn við Geysi
Ferðamenn við Geysi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

24 fjölsóttir ferðamannastaðir hér á landi eru taldir varasamir og farið verður í brýnar úrbætur á þeim á árinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Staðirnir eru m.a. Arnarstapi, Dyrhólaey, Geysir og Seljalandsfoss.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögur Stjórnstöðvar ferðamála um aðkallandi aðgerðir á árinu 2016 til að bæta öryggi ferðamanna og um leið almennings í landinu. Aðgerðirnar snúa að málefnasviðum á vettvangi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra og skulu þeir setja þær í forgang og beita sér fyrir því að stofnanir á þeirra málefnasviðum hliðri til eins og frekast er unnt til að tryggja framgang umræddra verkefna.

Þá samþykkti ríkisstjórn Íslands að veita 20 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu vegna tillagna um bætta upplýsingagjöf og forvarnir vegna öryggis ferðamanna.

„Tillögurnar sem samþykktar voru í morgun eru afrakstur markvissrar vinnu starfshóps undir forystu Stjórnstöðvar ferðmála. Markmið hópsins var að móta hnitmiðaðar tillögur sem myndu skila sem mestum árangri og hægt væri að framkvæma á árinu,“ segir í tilkynningunni en að tillögugerðinni komu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, lögreglunni, Landsbjörgu, Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Félagi leiðsögumanna, SAF og Ferðamálastofu.

Við Reynisfjöru
Við Reynisfjöru mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki öll í eigu eða umsjón ríkisins

Fyrrnefndir staðir eru Arnarstapi, Dettifoss, Djúpalónssandur, Dyrhólaey, Geysir, Goðafoss, Grjótagjá og Stjóragjá, Gullfoss, Gunnuhver, Fjaðrárgljúfur, Jökulsárlón, Ketubjörg, Kolugljúfur, Krísuvíkurbjarg, Látrabjarg, Námaskarð/Leirhnjúkur, Reykjadalur, Reynisfjara, Seljalandsfoss, Seltún, Skógafoss, Sólheimajökull, Svínafellsjökull og Víti/Askja/Drekagil.

Í tilkynningunni er tekið fram að umrædd svæði séu ekki öll í eigu eða umsjón ríkisins og því verða næstu skref að ræða við landeigendur á viðkomandi svæðum. Þá er einnig vakin athygli á því að fjögur af þessum verkefnum þ.e. í Reykjadal, við Goðafoss, við Dettifoss og við Fjaðrárgljúfur voru með umsókn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og fengu því styrk í nýjustu úthlutun sjóðsins. Þá hafði sjóðurinn áður veitt styrk til umræddra verkefna við Seljalandsfoss.

Landvörðum fjölgað

Umrædd tillaga gerir ráð fyrir að landvörðum verði fjölgað en þeir gegna lykilhlutverki við aðstoð, upplýsingagjöf og eftirlit vegna þekkingar þeirra á staðháttum. Árið 2013 voru landvarðavikur á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar u.þ.b. ein landvarðavika fyrir hverja 1.000 ferðamenn en verða að óbreyttu, ef spár um fjölda erlendra ferðamanna nær fram að ganga, um ein vika fyrir hverja 1.780 ferðamenn. Ljóst er að miðað við spá um fjölgun ferðamanna verður að fjölga landvörðum og forgangsraða eftir hættusvæðum.

Tillögurnar fela jafnframt í sér að landvörðum fjölgi þannig að það verði ein landvarðavika fyrir hverja 1.370 ferðamenn árið 2016. Alls er þannig gert ráð fyrir um 30% aukningu í landvörslu á svæðum í umsjón Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar.

Eftirlit lögreglu aukið

Yfir sumarmánuðina verður eftirlit lögreglu aukið á fjórum svæðum; á hálendinu, á Suðurlandi, á Norðurlandi Eystra og á Suð- Austurlandi. Þá verður löggæsla í uppsveitum Árnessýslu og á ferðaleiðinni Gullna hringnum aukin allt árið.

Lögð verður sérstök áhersla á að auka öryggi og vetrarþjónustu að fjölförnustu ferðamannastöðunum. Forgangsröðunin tekur mið af umferðarþunga, mati á hættu og fjölda útkalla vegna ferðamanna en markmiðið er að auka umferðaröryggi bæði á þjóðvegum og ferðamannaleiðum.  

„Markmiðið með góðri upplýsingagjöf, eftirliti og forvörnum er að hindra slys og óhöpp í stað þess að bregðast við þeim. Verkefnin sem um ræðir eru að styrkja hálendisvakt Landsbjargar, fjölga upplýsingaskjáum SafeTravel, setja upp upplýsingaskjá í Leifsstöð, efla fræðslu og kynningarstarf á vegum Landsbjargar (SaveTravel), endurbæta og halda áfram að prenta stýrisspjöld í bílaleigubíla,“ segir í tilkynningunni. 

Ferðamenn við Seljalandsfoss.
Ferðamenn við Seljalandsfoss. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert