Fimm ára leið auðveldar fasteignakaup

Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands, og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs …
Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands, og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs leggur til að farin verði svokölluð fimm ára leið til þess að auðvelda ungu fólki fasteignakaup. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einstaklingar sem kaupa sína fyrstu íbúð gætu greitt húsnæðislán sín hraðar niður, sloppið við himinháa vexti og lifað betra lífi ef lífeyrisgreiðslur hvers mánaðar myndu renna beint til niðurgreiðslu húsnæðislána í fimm ár við fyrstu fasteignakaup. Þetta segir Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs.

Í grein sem Kristófer Már birti á vefsíðunni Rómur í gær tekur hann dæmi um að ungt par með samanlagðar tekjur að fjárhæð 800 þúsund krónur fyrir skatt gætu greitt rúmlega 10 milljónir kr. aukalega inn á lánið sitt á fimm árum m.v. lán að fjárhæð 25,5 milljónir króna til 25 ára. Forsendurnar miðast við. 15,5 prósenta iðgjald og fullnýttan séreignarsparnað.

Þar að auki gæti parið sparað sér rúmlega 1,8 milljónir kr. í vaxtakostnað á fimm árum og í heildina næmi sparnaðurinn í vaxtakostnaði rúmlega 13 milljónum kr. yfir tímabilið þar sem niðurgreiðsla lánsins færi hraðar fram og þau eignuðust húsnæðið 10 árum fyrr.

„Þau byrja þá að safna lífeyri af krafti aðeins seinna á ævinni en jafnframt eru þau orðin tekjuhærri að öllu jöfnu, hafa meira rými til sparnaðar og kaupmáttur þeirra eykst,” skrifar Kristófer.

Þingmenn gefa hugmyndinni gaum

Greinin sem ber yfirskriftina „Má bjóða þér fasteign fyrir þrítugt?“ og birtist á vefnum Rómur í gær hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hefur henni verið deilt yfir 3 þúsund sinnum. Þar segir hann að skyldusparnaður sé of hár á sama tíma og flestir séu að skuldsetja sig. Segir hann sparnað og skuldsetningu á sama tíma vera furðulega uppskrift.

Hugmyndin virðist hafa náð til eyrna alþingismanna en bæði Eygló Harðadóttir, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, hafa tjáð sig um hugmyndina á Facebook-síðum þeirra. Eygló benti á að ungt fólk geti nýtt sér séreignasparnaðarleið stjórnvalda en þó megi gera betur.

Grein Kristófers í heild sinni.

Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi.
Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi. Ljósmynd/Håkon Broder Lund
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert