„Þetta er dásamleg lífsreynsla“

Ester Ýr Jónsdóttir.
Ester Ýr Jónsdóttir. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ester Ýr Jónsdóttir hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og safnar áheitum fyrir Íslenska ættleiðingu, en Ester og eiginmaður hennar eignuðust sitt fyrsta barn síðastliðið haust, þegar þau ættleiddu dreng frá Tékklandi.

Sonurinn valinn út frá foreldrunum

Ester segir nauðsynlegt er að fara í gegnum Íslenska ættleiðingu, ef ættleiða á erlendis frá. Ferli hennar hófst um mánaðamótin janúar-febrúar 2014 og fengu þau svokallað forsamþykki frá sýslumanninum í Reykjavík í júní sama ár. Hófst þá umsóknarferlið fyrir umsókn til Tékklands.

Spurð hvers vegna Tékkland hafi orðið fyrir valinu segir Ester ekki úr svo mörgum löndum að velja og að þeim hafi litist vel á ferlið í Tékklandi. Þá sé mjög gott samband milli Íslenskar ættleiðingar og ættleiðindayfirvalda þar í landi og að hlutfallslega hafi óvenju mörg börn komið hingað til lands frá Tékklandi, miðað við önnur lönd.

„Tékkarnir para foreldra við börnin. Þeir eru þarna með barn sem vantar fjölskyldu og horfa yfir alla umsækjendur sína og velja umsækjendur sem passa því barni best. Það er búið að taka alls konar sálfræðipróf og viðtöl. Við þurftum að fara til tveggja sálfræðinga og það voru mjög ítarlegar skýrslur gerðar um okkur. Út frá þeim, skapgerð, áhugamálum og öllu mögulegu erum við síðan pöruð við okkar dreng.“

Ester ásamt syni sínum.
Ester ásamt syni sínum. Skjáskot/Hlaupastyrkur

Stóra jólagjöfin

Þau hjónin héldu síðan til Tékklands á síðasta ári og dvöldu þar í sex vikur áður en fjölskyldan snéri heim til Íslands 22. desember í fyrra, með „stóru jólagjöfina“, eins og Ester orðar það.

„Við byrjuðum á því að funda með ættleiðingaryfirvöldum í Tékklandi í borg sem heitir Brno, sem er mjög austarlega í landinu. Síðan fórum við alveg í vesturhlutann í bæ sem heitir Most og þar er barnaheimili sem sonur okkar var á. Við byrjuðum á að hitta sálfræðing og félagsfræðing og lækni og svo hittum við peyjann“, segir Ester, en sonur þeirra var þá rúmlega tveggja ára gamall.

„Við fengum upplýsingar um hann á tveggja ára afmælisdegi hans og vorum farin út tveimur vikum seinna.“

Í janúar hófu þau síðan að mæta til Íslenskrar ættleiðingar annan hvern fimmtudag og eru þakklát fyrir þann stuðning sem fæst þar. „Þá eru fjölskyldumorgnar, þar sem foreldrar sem eru í fæðingaorlofi geta mætt og spjallað saman og krakkarnir geta leikið sér saman. Það er náttúrlega frábært að hitta fólk sem hefur sömu reynslu.“

„Það eru kannski ákveðin atriði sem þurfum að takast á við í uppeldinu sem aðrir þurfa ekki að takast á við. Nýbakaðir foreldrar hafa yfirleitt ungabörn í höndunum en við höfum svolítið stærri börn sem hafa meiningar og ákveðna lífsreynslu á bakinu. Það er sálfræðingur á staðnum sem maður getur spjallað við líka.“

Segir vanta umræðu og kynningu á málaflokknum

Ester segir mikilvægt að muna að ættleiðing sé fyrsta val hjá sumum þegar kemur að barneignum. Margir vilji til dæmis heldur ættleiða en að reyna glasafrjóvgun.

„Við vorum búin að reyna glasa áður. Við hefðum viljað kynna okkur ættleiðingar fyrr, en samfélagið er einhvern veginn þannig að það er talið eðlilegt að maður fari í glasafrjóvgun.“

„Hjá sumum er þetta einhvern veginn síðasti kostur að ættleiða, en á alls ekki að vera það. Það vantar betri umræðu og meiri kynningu á málaflokknum, því þetta er dásamleg lífsreynsla.“

„Ég hvert fólk innilega til að kynna sér þennan málaflokk. Það eru mjög margir sem hafa gengið með og fætt sín börn og ættleiða líka, svo það eru alls konar fjölskyldur sem verða til.“

Hleypur í fjórða sinn

Hlaupið í ár verður ekki fyrsta Reykjavíkurmaraþon Esterar, því hún hefur tekið þátt síðan 2013. Síðstu þrjú hlaup hefur hún safnað áheitum við Samtök um endómetríósu, sem er sjúkdómur sem hún hrjáist sjálf af.

„Endómetríósa er sjúkdómur sem hrjáir konur. Þetta er mjög sársaukafullur sjúkdómur sem veldur ófrjósemi í 40% tilfella.“

Ester segir samtökin veita konum með endómetríósu stuðning og berjast fyrir málefnum kvenna með sjúkdóminn. Þá veiti þau fjölskyldum stuðning, því sjúkdómurinn haf áhrif á fleiri en þá sem hann hafa.

„Það er erfitt að horfa upp á dóttur eða maka engjast um að kvölum kannski marga daga í mánuði.“

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Ester í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.

mbl.is
Loka