Síðasti símaklefinn er í Súðavík

Litla skiptibókasafnið í Súðavík, sem Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari, setti þar …
Litla skiptibókasafnið í Súðavík, sem Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari, setti þar á laggirnar.

Tíkallasíminn í símaklefanum í Súðavík svínvirkar. Rétt eins og Litla skiptibókasafnið í Súðavík, sem Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari, setti þar á laggirnar stuttu eftir meinta aftengingu allra almenningssíma á landinu er snjallsímarnir höfðu tekið öll völd.

Fyrir tólf árum voru fimm hundruð símaklefar úti um allar trissur á landinu. Núna eru sárafáir á stangli, aftengdir, afskiptir og í misjöfnu ástandi. Farsímavæðingin gekk smám saman af símasjálfsölum og símaklefum dauðum, ef svo má segja, og í lok árs 2014 voru þeir síðustu teknir úr sambandi – að því er talið var að minnsta kosti – seldir eða farið með þá á haugana. Um þetta leyti var þeirri kvöð aflétt af Símanum að halda úti almenningssímaþjónustu.

„Við gáfum nokkra á safn, til að mynda á Samgöngusafnið á Skógum, og seldum aðra á uppboði. Einn stendur við Bus Hostel og er líklega sá eini á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vitum við af símaklefum í eigu sveitarfélaganna á Vopnafirði, í Búðardal og Súðavík “ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Það kemur henni alveg í opna skjöldu þegar henni er tjáð að símasjálfsalinn í Súðavík sé enn í fullu fjöri. Hún þvertekur fyrir að hann sé á vegum Símans.

„Þetta er tíkallasími og svínvirkar,“ staðhæfir Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari í Súðavíkurskóla, sem fyrir tveimur árum fékk gamla símaklefanum í heimabæ sínum nýtt hlutverk þegar hún opnaði þar Litla skiptibókasafnið í Súðavík.

Hrekkjóttur kennari

Hún segist stundum gera það af skömmum sínum að hringja í símaklefann þegar hún sér fólk sem hún þekkir þar inni að velja sér bækur. „Því bregður alveg hroðalega,“ segir Dagbjört og kraumar í henni hláturinn. Tekur svo fram að hún hrekki vitaskuld enga nema hún þekki þá mjög vel. „Maðurinn minn, sem er innfæddur Súðvíkingur, man eftir að í gamla daga hafi foreldrar oft hringt í símaklefann til að segja krökkunum að koma í matinn, þegar þeir voru að leika sér á aðalgötunni sem þá var og klefinn stóð við.“

Trúlega eru bæjarbúar fyrir löngu búnir að gleyma símanúmerinu í klefanum, enda þurfa þeir ekkert á því að halda. Allflestir er „ínáanlegir“ hvar sem er og hvenær sem er, ekki síst krakkarnir. Aukinheldur tilheyrir símaklefinn nú gamla þorpinu svokallaða þar sem eftir flóð 1995 hefur verið sumarhúsabyggð og tjaldstæði.

Dagbjört fæddist og ólst upp í Reykjavík en á ættir að rekja til Súðavíkur og dvaldist sem barn og unglingur á sumrin hjá ömmu sinni og afa sem áttu bóndabýli skammt frá. Hún minnist þess ekki að hafa notað símaklefann í þorpinu, en aftur á móti þó nokkrum sinnum símaklefana í Reykjavík.

Litla skiptibókasafnið í Súðavík, sem Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari, setti þar …
Litla skiptibókasafnið í Súðavík, sem Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari, setti þar á laggirnar

Hringdu ókeypis til útlanda

„Einu sinni þegar ég var þrettán eða fjórtán ára að ganga framhjá símaklefanum rétt hjá Alþingishúsinu stóð maður þar fyrir utan og hrópaði: „Er einhver hér sem vill hringja ókeypis til útlanda?“ Sjálfur hefur hann ábyggilega verið búinn að hringja í alla frændur sína og frænkur í Ástralíu og bauð vegfarendum af mikilli rausn að gera slíkt hið sama. Líklega hefur gleymst að tæma símasjálfsalann eða einhver bilun verið í kerfinu. Mér þótti afar leitt að ég þekkti engan í útlöndum sem ég gat hringt í,“ segir Dagbjört.

Ólíkt símaklefum í Reykjavík og víða annars staðar hefur að sögn Dagbjartar alla tíð verið gengið sérdeilis vel um klefann í Súðavík, börn og unglingar bæjarins beri enda virðingu fyrir umhverfi sínu og algjört einsdæmi ef graff, krass og krot sjáist einhver staðar.

Símaklefinn í Súðavík, sem áður lét lítið yfir sér, smíðaður úr álprófílum og gleri, eins og aðrir slíkir, hefur tekið miklum stakkaskiptum eftir að Dagbjört fór um hann listrænum höndum. Hún útbjó litrík skilti með nafni safnsins á íslensku og ensku, og smíðaði nokkrar hillur fyrir bókakostinn. „Ég kíki annað slagið við til að fylgjast með hreyfingunni og svona rétta bækurnar við. Símasjálfsalinn er trúlega lítið sem ekkert notaður, en stundum þegar ég keyri hér framhjá sé ég þó aðkomufólk og túrista með símtólið í höndunum mjög undrandi á svipinn.“

Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari.
Dagbjört Hjaltadóttir, grunnskólakennari.

Fann bók í strætó

Á dögunum þegar Súðavíkurhreppi bauðst að halda símaklefanum í þorpinu eftir meinta aftengingu skaut hugmyndinni að skiptibókasafninu upp í kollinn á Dagbjörtu. Hún viðurkennir að hafa ekki endilega farið af stað með almannahagsmuni í huga. „Ég er mikil lestrarhestur, les alla daga eins og enginn sé morgundagurinn og heima hjá mér er allt troðfullt af bókum. Opnun safnsins var því svolítil eigingirni af minni hálfu því með tiltækinu gat ég losað mig við svolítið af bókum og séð sjálfri mér fyrir lesefni yfir vetrarmánuðina.“

Að þessu sögðu tekur Dagbjört fram að hún frábiðji sér að fá heilu dánarbúin að gjöf, markmiðið sé frekar að á safninu sé stöðugt flæði; notendur komi með og taki til skiptis eina til kannski tvær til þrjár bækur. Bæði er rými takmarkað og símaklefinn berskjaldaður fyrir veðri og vindum því veggirnir standa á stólpum. „Ég tek bækurnar heim þegar líður á haustið og stilli þeim upp að nýju þegar vorar, í þriðja sinn væntanlega á næsta ári,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert