„Hafði aldrei séð svona hjól“

Sigríður Ýr og Michael Reid, kærasti hennar. Þau ætla ásamt …
Sigríður Ýr og Michael Reid, kærasti hennar. Þau ætla ásamt Chris Fabre að gera tilraun að heimsmeti á lengstu vegalengd ekinni á svokölluðu Pocket Bike-mótorhjóli. Þríeykið mun hjóla í gegnum miðhluta Bandaríkjanna. Ljósmynd/Sigríður

Hinn 5. september mun Sigríður Ýr Unnarsdóttir hefja 2.500 kílómetra langt ferðalag á svokölluðu Pocket Bike-mótorhjóli, sem er mótorhjól í barnastærð. Markmiðið er að komast í heimsmetabók Guinness fyrir að ferðast lengstu vegalengdina á Pocket Bike-hjóli.

„Hugmyndin vaknaði í byrjun sumars, við Michael fórum fyrst í hringferð um Bandaríkin á mótorhjóli og við erum að reyna að finna leiðir til þess að hittast og gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni. Þessi ferð gekk svo ótrúlega vel að við fórum strax að skoða hvað við gætum gert næst,“ segir Sigríður, sem mun ferðast með Michael Reid, kærasta sínum, og Chris Fabre, sem er mótorhjólasérfræðingur hópsins.

„Chris vinnur hjá Triumph-umboðinu í Philadelphia. Við leituðum til þess með styrktarbeiðni og það endaði á því að senda starfsmann til að ferðast með okkur. Hann er í rauninni hjólameistarinn.“

Áður en Sigríður fór hringferðina um Bandaríkin með Michael í byrjun sumars hafði hún aldrei sest á mótorhjól. „Ég hafði aldrei á ævinni séð svona Pocket Bike-hjól sem ég ætla að setja heimsmet á,“ segir Sigríður.

Byrja í fallhlífarstökki

Ferðalagið mun hefjast með fallhlífarstökki á frægasta stökksvæði Bandaríkjanna, Start Skydiving, í Ohio. Þaðan verður haldið gegnum miðhluta Bandaríkjanna og er endastöðin á Golden Aspen-mótorhjólasýningunni í Nýju Mexíkó. Ferðin mun taka 12 daga og áætlar Sigríður að koma í mark ásamt förunautum sínum 15. september.

Núverandi heimsmet var sett 8. ágúst 2009 þegar Ryan Galbraith og Chris Stinson óku 718 kílómetra. Því var upphaflegt markmið Sigríðar og Michaels að fara 800 kílómetra, en í ljósi þess að tilraun var gerð að heimsmetinu árið 2014 þar sem eknir voru 2.264 kílómetrar ákváðu þau að hjóla 2.500 kílómetra, ef svo skyldi vera að Guinness staðfesti heimsmetstilraunina árið 2014, en það hefur ekki enn verið gert. „Það var bara ekki búið að staðfesta öll gögnin úr þeim tilraunum og ég veit ekki hvort það á einfaldlega eftir að staðfesta þau eða hvort eitthvert skilyrði var ekki uppfyllt,“ segir Sigríður.

Þurfa alls konar búnað

Það er ekki hlaupið að því að setja heimsmet. Sigríður Ýr og ferðafélagar hennar þurfa að uppfylla ýmis skilyrði sem Guinness setur til þess að heimsmetstilraunin teljist gild.

Taka þarf upp í að minnsta kosti fimm mínútur af hverjum klukkutíma sem þau keyra. Til þess þarf útivistarmyndavél á öll hjólin. Einnig þarf fylgdarbíl með upptökutæki. Sigríður, Michael og Chris þurfa þar að auki að vera með GPS- staðsetningartæki á sér.

Þessi útbúnaður er ekki ódýr og því hafa ferðalangarnir sett upp styrktarsíðu á gofundme.com, þar sem fólki er boðið að heita á þríeykið áður en þau halda í þessa 12 daga ferð í gegnum níu ríki í hjarta Bandaríkjanna, frá Ohio til New Mexico.

Þau eru af minni gerðinni, pocketbike mótorhjólin.
Þau eru af minni gerðinni, pocketbike mótorhjólin.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert