Óljós tilgangur verðtryggingafrumvarps

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra kynntu frumvörp …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra kynntu frumvörp um fyrstu fasteign og breytingar á verðtryggðum neytendalánum í Hörpunni um miðjan síðasta mánuð. mbl.is/Þórður

Tilgangurinn með frumvarpi fjármálaráðherra um breytingu á verðtryggðum neytendalánum, þar sem meðal annars er takmarkað hverjir geta tekið slík lán og til hvers langs tíma þau geta verið, er óljós og hægt verður að líkja nánast algerlega eftir slíkum lánum með öðrum formum sem ekki verða bönnuð. Þetta segir í umsögn Seðlabanka Íslands við frumvarpinu.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að bannað verði „að veita neytendalán til lengri tíma en 25 ára sé það verðtryggt og með jafngreiðslufyrirkomulagi“ nema lántakandinn sé undir tilteknum aldursmörkum eða hafi lágar tekjur eða veðsetningarhlutfall lánsins sé að hámarki 50%, segir í umsögninni. Bent er á að ekki komi fram hversu margir standi utan þessara skilyrða, en að áhrifin verði minni eftir því sem fleiri séu undanþegnir lögunum.

Segir Seðlabankinn að tilgangur frumvarpsins sé óljós, en virðist vera til að mæta skorti á upplýsingagjöf vegna lánveitinga. Bendir bankinn á að ef svo er sé æskilegra að bregðast við því með beinum hætti og fræða lántakendur um slíkt lánaform frekar en að takmarka valkosti sem standi til boða.

Þá er bent á að lánsformið sem bannið nái til sé mjög skýrt skilgreint í frumvarpinu, „en bannið mun því ekki ná til lánsforma sem viðbúið er að komi fram verði það að veruleika, og geta líkt nánast algerlega eftir því formi sem bannað verður. Því er líklegt að verði afar erfitt að ná þeim markmiðum sem frumvarpi þessu er ætlað að ná,“ segir í umsögninni.

Bankinn gagnrýnir einnig framsetningu á skýringarmyndum í greinargerð með frumvarpinu. Segir hann að endurgreiðsluferlar verðtryggðra og óverðtryggðra lána séu sýndir á verðlagi hvers tíma miðað við ákveðna forsendu um verðlagsþróun. Réttara væri að sýna samanburðinn á föstu verðlagi og að núverandi framsetning sé villa. Er þetta svipuð gagnrýni og annað frumvarp ráðherra um „Fyrstu fasteign“ fékk hjá bankanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert