Ný heimasíða og starfsmaður á Bessastaði

Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands fyrr í …
Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands fyrr í ár. Sótt er um 10 milljónir vegna kostnaðar við embættistökuna, nýs starfsmanns og uppfærslu á heimasíðu embættisins. Júlíus Sigurjónsson

Embætti forseta Íslands fær 10 milljónir aukalega samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í gær. Meðal annars er gert ráð fyrir að heimasíða embættisins verði færð til nútímahorfs og gerð gagnvirk, en núverandi síða er 16 ára gömul. 

Kostnaður vegna uppfærslu heimasíðunnar er áætlaður 5 milljónir og er gert ráð fyrir að efnt verði til útboðs síðar í haust og ný síða opnuð fyrir lok ársins, að því er fram kemur í skýringum með fjáraukalögunum.

Þá er einnig sótt um 5 milljóna framlag í tengslum við embættistöku nýs forseta og til að ráða starfsmanna til að sinna almennum verkefnum á Bessastöðum. Kemur fram í skýringum frumvarpsins að starfsmannafjöldi embættisins hafi haldist óbreyttur undanfarna áratugi. Þá hafði embættistaka nýs forseta falið í sér margvísleg útgjöld.

Þá er einnig sótt um 15 milljóna framlag í gegnum forsætisráðuneytið fyrir húsasmíðameistara ríkisins, en aukin útgjöld eru rökstudd með því að kostnaður hafi fallið til vegna flutninga, öryggismála, innréttinga og endurbóta á innanstokksmunum á Bessastöðum við forsetaskiptin. Er um að ræða innanstokksmuni í Bessastaðastofu, bókhlöðu og móttökusal.

mbl.is