Múlakvísl lónar yfir bílaplanið

Múlakvísl lónar nú yfir bílaplanið við Múlakvíslarbrú, en starfsmenn Vegagerðarinnar …
Múlakvísl lónar nú yfir bílaplanið við Múlakvíslarbrú, en starfsmenn Vegagerðarinnar gerðu varnargarð við planið í gær. mbl.is/Jónas Erlendsson

Múlakvísl lónar nú yfir bílaplanið sem starfsmenn Vegagerðarinnar á Suðurlandi útbjuggu varnargarð við í gær. Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal, segir varnargarðinn halda og telur brúnni eða þjóðvegi eitt vera lítil hætta búin.

Lítill straumur er á bílaplaninu og segir hann helst bera á straumi í skurði sem var grafinn fyrir árfarveginn til að fylgja. „Það gerist ekkert þó að garðurinn fari,“ segir Ágúst Freyr og telur litla hættu á að brúin fari. „Þetta lónar bara til hliðanna við hana,“ bætir hann við og útskýrir að vatnsyfirborðið geti hækkað um fleiri fleiri metra áður brúnni verði hætta búin. Þá sé sömuleiðis lítil hætta á að Múlakvísl fari yfir þjóðveginn þó hún sé nú yfir veginum að bílaplaninu. „Það er ekkert sem er að skemmast.“

Veðurvefur mbl.is

Mikið vatn í öllum ám undir Eyjafjöllum

Starfsmenn Vegagerðarinnar í Vík voru staddir undir Eyjafjöllum að skoða Bakkakotsá, Sandanesá og fleiri ár á svæðinu til að kanna ástand þeirra. „Það er mikið vatni í öllum ám hér undir fjöllunum, en enn þá eru allir vegir og varnargarðar á sínum stað og það virðist allt halda,“ segir Ágúst Freyr.

Aukist vatnsmagn í ám á svæðinu ekki mikið til viðbótar verði þetta væntanlega í lagi. „En það rignir enn þá vel og þess vegna erum við að fylgjast með og stökkvum til ef eitthvað gerist.“

Hann segir Vegagerðina þá ekki hafa orðið vara við að skriður hafi fallið eða grjóthrun orðið.

Ágúst Freyr segir ástandið í Þórsmörk þó væntanlega verra.  „Þórsmörk er væntanlega eitthvað illa farin, en það skoðum við bara þegar sjatnar í ánni.“

Á vefsíðu Veðurstofunnar segir að mestu flóðin hingað til hafi verið á svæðinu við og austan við Mýrdalsjökul, á Barðaströnd og Snæfellsnesi, en einnig hafi verið miklir vatnavextir í ám í nágrenni Reykjavíkur og vatn sé enn að vaxa í þeim ám.

„Rennsli er byrjað að aukast á vatnasviði Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Árnessýslu og Ölfusár og á eftir að vaxa í allan dag. Mjög mikið hefur verið í Soginu. Rennsli Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi hefur líklega sjaldan orðið meira undanfarna áratugi en í jökulhlaupum. Í Krossá í Þórsmörk er einnig mjög mikið rennsli og er áin farin að dreifa mikið úr sér. Enn á eftir að vaxa mjög í ám á svæðinu frá Mýrdalsjökli til Hornafjarðar. Gera má ráð fyrir að rennsli Djúpár og annarra vatnsfalla í Skaftafellssýslu haldi áfram að vaxa í dag,“ segir á vefsíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert