Rúta og strætó út af á Hellisheiði

Strætisvagninn sem fór út af veginum.
Strætisvagninn sem fór út af veginum. Ljósmynd/Aðsend

Rúta fór út af í hálku í Hveradalabrekkunni á Hellisheiði um níuleytið í morgun. Engin slys urðu á fólki og ekkert tjón varð á rútunni. Að sögn Hallgríms Lárussonar, eins af framkvæmdastjórum Snæland Grímsson, var rútan á litlum hraða. Hann bætir við að sem betur fer hafi enginn slasast.

Hann segir að mörg ökutæki hafi farið út af veginum á þessu svæði í morgun, þar á meðal strætisvagn, bílaleigubílar og sendibílar.

„Það var hálka þarna og vindstrengur sem feykti bílum til. Sem betur fer slapp allt mjög vel hjá okkur og enginn skaði varð,“ segir Hallgrímur. Önnur rúta kom og náði í farþegana sem voru í rútunni sem fór út af veginum.

Aðspurður segir hann að allir bílar fyrirtækisins séu á vetrardekkjum og því vel útbúnir í versnandi færð. Aðalástæðan fyrir því að rútan þeirra fór út af veginum sé vindhnúturinn sem hún fékk á sig.

Rútan utan vegar á Hellisheiðinni.
Rútan utan vegar á Hellisheiðinni. Ljósmynd/Marcin Kamieński

Strætisvagninn var á sumardekkjum

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, staðfestir í samtali við mbl.is að strætisvagn númer 51 sem ekur frá Reykjavík til Selfoss og Hveragerðis hafi farið út af veginum í Hveradalsbrekkunni.

Hann segir að vagninn hafi verið á sumardekkjum en ekkert ólöglegt sé við það.

„Verktakarnir sem keyra fyrir okkur hafa verið að fylgjast með þessu og þeir hafa metið aðstæður þannig. Það átti að vera mígandi rigning í morgun og ekki eins kalt og varð,“ segir Jóhannes.

Hann bætir við að verið sé að skipta sumardekkjum út á öllum strætisvögnunum Strætó bs. en það hafi einfaldlega ekki verið búið á vögnunum sem um ræðir.

„Það slasaðist enginn og það er fyrir mestu.“

mbl.is