Rjúpnaskytturnar komnar til byggða

Rjúpnaskytturnar tvær sem björgunarsveitir hófu leit að í gærkvöld og komu í leitirnar um klukkan hálfþrjú í dag eru komnar til byggða. Mennirnir voru fluttir til læknisskoðunar í Grundarfirði, en þeir voru orðnir talsvert kaldir og hraktir þegar þeir fundust.

„Það gekk svona ágætlega hægt, erfiðar aðstæður líka niður í móti og síðan óx svo mikið í ánum í Kolgrafarfirði að það var svona auka vinna við að koma fólki þar yfir,“ segir Anna Filbert hjá aðgerðastjórn björgunarsveitanna í samtali við mbl.is.  

Hún segir að tíminn frá því að fyrstu björgunarmenn komu að rjúpnaskyttunum og þar til komið var til byggða gæti hafa verið um 3-4 klukkustundir. Eftir því sem Anna best veit er líðan mannanna ágæt eftir aðstæðum, en þeir gengust undir læknisskoðun í Grundarfirði þegar komið var til byggða. 

Allir hópar eru komnir niður og er björgunarsveitarfólk á leið til síns heima. Björgunarfólk var sumt orðið þreytt, slappt og blautt að sögn Önnu, en sumir voru búnir að leita frá því í nótt. Í heildina komu rúmlega 200 manns að aðgerðinni með einum eða öðrum hætti.

Frá björgunaraðgerðum á Snæfellsnesi.
Frá björgunaraðgerðum á Snæfellsnesi. Ljósmynd/Alfons Finnsson
Frá björgunaraðgerðum á Snæfellsnesi.
Frá björgunaraðgerðum á Snæfellsnesi. Ljósmynd/Alfons Finnsson
Ljósmynd/Alfons Finnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert