„Þýðir ekki að líta alltaf á klukkuna“

Árni Björn Pálsson og Stormur frá Herríðarhóli á Landsmótinu á …
Árni Björn Pálsson og Stormur frá Herríðarhóli á Landsmótinu á Hólum í sumar. mbls.is/Þórunn

„Það eru margir litlir hlutir sem mynda eina heild. Fyrst og fremst þarf að hafa óbilandi áhuga á því sem maður er að gera og hafa gaman að því. Þetta gerist ekki á einni nóttu og það þarf að færa ýmsar fórnir. Það þýðir ekki að líta alltaf á klukkuna þegar verið er að temja og þjálfa hesta,“ segir Árni Björn Pálsson spurður hvað búi að baki þeim árangri að vera valinn knapi ársins en hann hampaði þeim titli á uppskeruhátíð hestamanna um liðna helgi.

Árni Björn er margverðlaunaður knapi en árangurinn hans í ár var með eindæmum góður á öllum sviðum. Til að mynda var hann tilnefndur í fjórum flokkum á uppskeruhátíðinni sem skeiðknapi, kynbótaknapi og íþróttaknapi ársins.

Á uppskeruhátíðinni var valinn efnilegasti knapi ársins Dagmar Öder Einarsdóttir, Hulda Gústafsdóttir íþróttaknapi ársins, gæðingaknapi ársins Jakob Svavar Sigurðsson, skeiðknapi ársins Bjarni Bjarnason, kynbótaknapi ársins Daníel Jónsson og keppnishestabú ársins og ræktunarbú ársins var valið Ketilsstaðir / Syðri-Gegnishólar.

Þykir vænt um fyrsta verðlaunapeninginn

Eins og Árni bendir á sjálfur er árangurinn ekki byggður upp á skömmum tíma. Hann hefur verið í hestamennsku frá barnæsku og stundað hana lengst af í Víðidal í Fák með fjölskyldu sinni. „Ég keppti fyrst á 17. júní móti árið 1993 í Fljótshlíðinni. Ég náði að vinna og á þessa gullmedalíu ennþá. Þetta var skemmtileg stund,” segir Árni Björn þegar hann rifjar upp fyrsta mótið sem hann tók þátt í þegar hann var 11 ára. Hann á ættir að rekja í Fljótshlíðina nánar tiltekið á bæinn Teig.   

Árni Björn býr nú í Oddhól í Rangárþingi með kærustu sinni Sylvíu Sigurbjörnsdóttur. Þar reka þau saman tamningastöð. „Ég get alveg sagt það hreint út að hún Sylvía mín á alveg helminginn af árangrinum í þessu öllu,“ segir hann. Hann tekur einnig fram að hann hafi verið með góðan hestakost sem fylgdu fjölmörg tækifæri auk þess hafi fólk staðið þétt á bak við hann. 

Fjórar 10 á kynbótabrautinni

Á Landsmótinu á Hólum í Hjaltadal í sumar stóð hann framarlega í mörgum greinum. Hann náði þeim einstaka árangri að sigra töltkeppnina á Stormi frá Herríðarhóli bæði á Landsmóti og á Íslandsmóti í sumar. Hann gerði það einnig árið 2014 á sama hesti. Árni Björn sigraði allar töltkeppnir sem hann tók þátt í á þessu ári. Þess má einnig geta að hann var með besta tímann í 150 metra skeiði á Landsmóti. 

Á kynbótabrautinni á Landsmótinu sýndi hann þrjú hross sem hlutu samtals fjórar 10 fyrir gangtegundir. Af þeim hlaut stóðhesturinn Ljósvaki frá Valstrýtu tvær 10 bæði fyrir tölt og stökk. Þetta er einstakt afrek því þetta er í fyrsta skipti sem hestur hlýtur 10 fyrir báðar þessar gangtegundir í sama dómi.   

Árni Björn Pálsson, knapi ársins er annar frá vinstri í …
Árni Björn Pálsson, knapi ársins er annar frá vinstri í neðri röðinni. Allir verðlaunahafar á uppskeruhátíð hestamanna. Ljósmynd/LH

Gott að láta gott af sér leiða

Í valinu á knapa ársins vógu einnig þungt fjórir titlar sem hann náði í  Meistaradeildinni sem fram fór í vetur. Árni Björn stóð efstur í gæðingafimi, T1 tölti, T2 en þá er riðið tölt við slakan taum og í fimmgangi. Í þeirri deild stóð hann efstur í einstaklingskeppni í ár en það var þriðja árið í röð.

Fyrir hverja grein er veitt verðlaunafé. Árni Björn gaf allt sitt fé sem hann aflaði til góðgerðamála. Hann hefur gert það síðustu tvö ár. „Það er alltaf gott að geta lagt þeim lið sem minna mega sín. Ég er hraustur og get unnið en sumir geta það ekki og þeir geta því notað betur þessar fáu krónur,” segir hann.  

Árni Björn setur sér alltaf ný markmið. Hann stefnir á að komast í landsliðið næsta sumar með hestinn Odd frá Breiðholti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fer fram í Hollandi. Hann segist ekki hafa enn náð neinum heimsmeistaramótstitlum í íþróttakeppni og því sé það tilvalið að stefna að titli í fimmgangi í sumar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert