Ungbarnanudd örvar og róar

Hrönn Guðjónsdóttir hefur kennt ungbarnanudd frá árinu 2005 við góðar …
Hrönn Guðjónsdóttir hefur kennt ungbarnanudd frá árinu 2005 við góðar undirtektir. Hún telur mikilvægt að allir foreldrar kynni sér nuddtækni; við nuddið myndist sterk tengsl milli barns og þess sem nuddar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það verður svo mikil nánd á milli barnsins og þess sem nuddar, ásamt því að ungbarnanudd hefur hjálpað mörgum börnum með magakveisu og loft í þörmum,“ segir Hrönn Guðjónsdóttir, heilsunuddari, nálastungufræðingur og ungbarnanuddkennari.

Hún kenndi foreldrum barna á aldrinum tveggja til tíu mánaða undirstöðuatriði ungbarnanudds í Menningarhúsinu í Spönginni í Reykjavík í gær.

Fjölmargar rannsóknir benda til þess að börn sem nudduð eru reglulega þyngist bæði og þroskist fyrr en þau börn sem ekki eru nudduð, að sögn Hrannar, en blóðflæði eykst til muna við nuddið og gefur aukna öryggistilfinningu. Þá er talið að mæður sem þjást af þunglyndi eftir fæðingu finni fyrir aukinni vellíðan.

Í fyrsta tíma eru foreldrum kenndar strokur fyrir fætur, maga og bak.

Sýna strax mikil viðbrögð

Herbergið þar sem fræðslan fór fram í gær var nær fullt þegar blaðamann Morgunblaðsins bar að garði enda hafa vinsældir ungbarnanudds vaxið mjög síðustu ár. Nuddið er sagt notaleg gæðastund milli foreldra og barna. „Það sem ég sé er að fólk nær að skilja barnið sitt miklu betur,“ segir Hrönn, en nuddstrokurnar sem hún kennir eru bæði til örvunar og losunar. „Eftir fyrsta tímann í nuddi er yfirleitt mikill grátur því börnin verða svöng og þreytt því þetta er svo mikil örvun,“ segir Hrönn – börnin sýni þannig strax viðbrögð.

Börn með magakveisu bregðast einnig vel við nuddinu og sofa strax betur eftir fyrsta tímann. Þá býður Hrönn einnig upp á nálastungur fyrir börn á nuddstofu sinni Nálar og nudd ef þau eru með magakrampa.

Þá getur nuddið einnig nýst eldri börnum. „Þegar þau eru orðin eins árs eru foreldrarnir svolítið að elta barnið og ná kannski tveimur mínútum af nuddi. Svo þegar barnið er orðið tveggja ára getur maður byrjað aftur, barnið orðið rólegra og hætt að skynja allan heiminn.“

Betri tengslamyndun

Hjalti Kolbeinsson var mættur í tímann með Snædísi Ídu, sex mánaða dóttur sína, en hann og kona hans hafa góða reynslu af ungbarnanuddi. „Þetta virkar vel þegar hún er óróleg, þá hjálpar þetta,“ segir hann og tekur undir að nuddið skapi líka góða nánd.

Hrönn segir nuddið einnig hjálpa mökum að skilja betur þarfir barnsins ásamt betri tengslamyndun.

Foreldrarnir sem sóttu fræðsluna voru flestir í fæðingarorlofi og fögnuðu …
Foreldrarnir sem sóttu fræðsluna voru flestir í fæðingarorlofi og fögnuðu tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt með börnum sínum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert