Kynjahallinn er sláandi

Ágústa Sveinsdóttir.
Ágústa Sveinsdóttir. mbl.id/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er ætlun okkar að brjóta allar stereótýpur á bak aftur og koma af stað viðhorfsbreytingu til iðn- og tæknigreina, þar sem er mikill skortur á fólki bæði til náms og starfa. Þegar tölur eru skoðaðar sést að kynjahallinn þar er sláandi og því viljum við breyta. Því gerum við hagsmuni kvenna að áherslumáli sem þó er mikilvægt öllum hópnum,“ segir Ágústa Sveinsdóttir, markaðsfulltrúi hjá Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins.

Mikilvægt jafnréttismál

Á dögunum hrundu Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu, af stað átakinu #kvennastarf. Skýrast sér verkefni þessu stað með auglýsingum sem eru til dæmis á strætisvagnaskýlum á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru á myndum stelpur sem nema hinar ýmsu iðngreinar og eru góðar fyrirmyndir. Einnig eru gefin út myndbönd um nám og störf kvenna í fögum þar sem karlar eru ráðandi. Auk þess verða möguleikarnir í verkgreinum kynntir beint fyrir nemendum, þá ekki síst stelpunum. Punkturinn í málinu er þá sá að hefðbundin verkaskipting kynjanna sem við þekkjum vel eigi ekki lengur við – enda hafi tímarnir breyst og mennirnir með, eins og máltækið segir.

„Ef konurnar, sem eru rúmlega helmingur þjóðarinnar, útiloka verklegar greinar er ekki að undra að þar vanti fólk. Svo er þetta líka bara mikilvægt jafnréttismál sem skólarnir vildu taka afstöðu með. Þessi samfélagslegu kynhlutverk eiga ekki að vera við lýði lengur. Allir eiga að geta orðið það sem þeir vilja,“ segir Ágústa Sveinsdóttir.

Mikilvægt er, segir Ágústa, að byrja sem fyrst að kynna fjölbreytta námsmöguleika fyrir ungu fólki. Á vegum Tækniskólans sé slíkt gert alveg niður í 8. bekk grunnskólans og á þeim vettvangi þurfi að koma til viðhorfsbreyting gagnvart verkgreinanámi, bæði meðal kennara og nemenda. „Já, það væri sniðugt að bjóða nemendum til dæmis upp á að vinna verkefni í samstarfi við fyrirtæki og fleira slíkt. Bóknámi er alltaf gert hærra undir höfði en öðrum greinum og í því felst mismunun. En hvað varðar stelpurnar þá á kynjaskiptur vinnumarkaður einfaldlega uppruna sinn í rótgróinni verkaskiptingu sem allir þekkja. Áður fyrr voru konur heimavinnandi á meðan karlmenn voru fyrirvinnur. Þessi fornaldarlegi hugsunarháttur er úreltur.“

Rætur í samfélagsgerð

En hverjar eru staðalímyndirnar um kynjaskiptan vinnumarkað? Jú, venjan er kannski ekki sú konur séu járnsmiðir, bifvélavirkjar eða vélstjórar. Og það er klárlega saga til næsta bæjar ef karl er snyrtifræðingur, kjólameistari eða permanentsnillingur á hárgreiðslustofu. En þetta má alveg vera svoleiðis og er raunar hið besta mál.

„Já, rannsóknir á vinnustaðamenningu sýna að fólki líður einfaldlega betur en ella á kynjablönduðum vinnustöðum. Þar er meira rými en annars fyrir fólk að vera það sjálft,“ segir Ágústa sem telur af og frá að kynjaskipting í starfsvali sé náttúrulögmál. Þessi veruleiki eigi sér rætur í menningar- og félagsbundinni kynjamótun.

„Það er eflaust erfitt fyrir konur jafnt sem karla að koma inn á vinnumarkaðinn og tilheyra þar minnihlutahópi. Slíkt getur haft fælandi áhrif. En ræturnar í þessu öllu liggja djúpt í samfélagsgerðinni og því verðum við að breyta. Það er því ekki síður í hag karlmanna að brjóta niður þá huglægu múra að starfsgreinar flokkist í kvenna- og karlastörf. Hið svokallaða „eðli kynjanna“ er líka bara mjög breytilegt eftir því hvar maður er í heiminum eins og mannfræðirannsóknir hafa margsinnis sýnt fram á. Verkaskipting kynjanna er ekki eitthvað óbreytanlegt náttúrulögmál,“ segir Ágústa.

„Ég var lítil stelpa þegar ég fékk fyrst hamar og …
„Ég var lítil stelpa þegar ég fékk fyrst hamar og sög í hendur,“ Rakel Ágústa Pétursdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verð á sama stað og strákarnir

„Smíðin er minn tebolli og stelpur eiga ekki að vera neitt feimnar við iðngreinar,“ segir Rakel Áslaug Pétursdóttir sem er á þriðja árinu af fjórum í húsasmíðanámi við Tækniskólann. Fjórar stelpur eru í þeirri deild en strákarnir skipta tugum – en breytingar á þeim kynjahlutföllum eru einmitt það sem verkefnið #kvennastarf gengur út á.

„Ég byrjaði á félagsfræðibraut til stúdentsprófs en fann mig þar ekki. Bara ekki til í dæminu. Fór því að skoða iðngreinarnar. Þar gafst í upphafi kostur á að kynna sér allar byggingagreinarnar svo sem teppalagningar, múrverk, málningu og pípulagnir. Smíðin varð niðurstaðan og það mjög eðlilega. Pabbi og afi eru karlar sem hafa verið að smíða alla sína tíð og ég var lítil stelpa þegar ég fékk fyrst hamar og sög í hendur,“ segir Rakel.

Nemendur í byggingaiðnum við Tækniskólann, hvort heldur þeir nema að smíða hús eða mublur, eru látnir spreyta sig á mörgu. Fyrst sníða þeir og setja saman allskonar smáhluti en þessa dagana er Rakel í innréttinga- og gluggasmíði. Þá er bygging á sumarhúsi sameiginlegt vetrarverkefni allra nemenda. Meðal bóklegra faga má svo nefna efnisfræði, þar sem fólk fær fræðslu um hinar ýmsu efnistegundir sem smíða skal úr og vinna.

Í húsasmíðanámi er skólinn eitt og svo þarf fólk að komast á námssamning hjá meistara. „Ef þú nennir er ekkert mál að komast á samning. Það vantar alls staðar smiði. Og ég verð úti á vinnumarkaðinum ábyggilega alveg á sama stað og strákarnir í launum, enda með sömu menntun og þeir,“ segir Rakel að síðustu.

Fjórða tæknibyltingin

Hvað varðar öðrum iðngreinum viðvíkur þá hafa menntamálin verið í brennidepli til dæmis hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands. Á vefsetrinu straumlina.is getur ungt fólk kynnt sér þá náms- og starfsmöguleika sem í faginu bjóðast og þeir eru margir. Þá er bent á að rafmagnsvinna hverskonar sé mjög fjölbreytt og krefjist sjaldnast líkamslegra aflsmuna. Að því leyti henti þessi störf konum mjög vel. Þá sér rafiðnaðurinn að breytast hratt um þessar mundir. Nettengd og skyngædd vélmenni fjórðu iðnbyltingarinnar komi nú sterk inn á markaðinn - og í þjónustu við þann búnað þurfi fólk af báðum kynjum.

Indriði Björn Þorvaldsson er í rafvirkjanámi. Konum í faginu fjölgar.
Indriði Björn Þorvaldsson er í rafvirkjanámi. Konum í faginu fjölgar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Markmiðið að þriðjungur fari í iðnnám

Sé gluggað í bækur iðnfræðslunnar á Íslandi kemur í ljós að frá upphafi hefur alls 32.641 karl lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein en aðeins 5.151 kona. Hlutföllin eru því 84% á móti 16%. Þær fáu iðngreinar þar sem konur hafa verið í meirihluta hingað til, svo sem í hársnyrtiðn, klæðskurður og kjólasaumur, eru meira að segja teknar með í þessa heildartölu. Karlarnir hafa hins vegar verið allsráðandi í trésmíði, járnaði, rafmagninu og fleiri slíkum fögum.

Að einungis 12% grunnskólanemenda velji iðn- og tæknigreinar þegar kemur að framhaldsnámi er mun lægra hlutfall en í helstu samanburðarlöndum Íslendinga. Þar fer allt að þriðjungur í iðnfögin og þangað ætla Íslendingar að vera komnir árið 2030, skv. þeim viðmiðum sem til hliðsjónar eru í verkefninu #kvennastarf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert