Gefa ekki millimetra eftir í mótmælum

Frá mótmælunum í Berufirði á sunnudaginn.
Frá mótmælunum í Berufirði á sunnudaginn. Ljósmynd/Berglind Häsler

„Það er mikill hugur í fólki,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði og tónlistarmaður, um mótmæli sem eru fyrirhuguð síðar í dag vegna niðurskurðar í samgöngumálum.

Síðasta sunnudag mótmæltu íbúar á svæðinu niðurskurðinum með því að loka þjóðvegi 1, Berufjarðarvegi, í  um tvær klukkustundir.  Í dag verður sama vegi lokað en búist er við meiri umferð um veginn í þetta sinn.

„Núna seinnipartinn er aðeins þyngri umferð á flutningabílum og öðru og það verða kannski meiri óþægindi af þessari lokun,“ segir Svavar Pétur.

Setið á hakanum í áratugi

„Það er orðið dálítið yfirgengilegt þessi niðurskurður á samgöngum utan höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki bara verið að mótmæla út af þessum vegakafla heldur niðurskurðinum í heild sinni. Það var lagt upp með ákveðna innviðauppbyggingu í kosningunum síðast og það er hægt og rólega verið að svíkja það allt saman,“ segir hann og bætir við að framkvæmdir við Berufjarðarveg hafi setið á hakanum í áratugi.

„Það var búið að ganga frá öllum samningum við landeigendur og það átti að fara í verkið. Við skiljum ekki að það sé ekki hægt að kýla á þetta.“

Svavar segir að ekki verði gefinn eftir millimetri í mótmælunum enda sé búið að „þenja mælinn í botn“ hjá íbúum Berufjarðar. Staðan verður rædd varðandi næstu skref að mótmælunum í dag loknum.

„Ég held að samgönguráðherra ætti að skella sér í bíltúr og heimsækja okkur og komast að því á eigin skinni hvers lags vitleysa þetta er að láta þennan veg liggja ókláraðan áratugum saman.“

Ósáttur oddviti

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepss, segir í samtali við Austurgluggann að Djúpavogsbúar eigi það inni að vera brjálaðir vegna frestunar á vegaframkvæmdum. Hann segist ekki ætla að halda aftur af mótmælendum og mun hvetja þá frekar en að letja, enda er hann sjálfur afar ósáttur við ákvörðun samgönguráðherra um að fresta framkvæmdunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert