Blasir við hvað þörfin er brýn

Vegurinn um Skógarströnd er meðal þeirra verkefna sem gætu ratað …
Vegurinn um Skógarströnd er meðal þeirra verkefna sem gætu ratað á dagskrá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra hefur verið falið að koma með tillögur um viðbótarfjármögnun til samgöngumála. Þetta var ákveðið á fundi ríkistjórnarinnar í dag. Vegabætur við Berufjarðarbotn og Dettifossvegur eru meðal þeirra framkvæmda sem gætu ratað á þann forgangslista.

Jón segir of snemmt að nefna nokkrar tölur varðandi viðbótarfjármögnun og segir hundruð milljóna tölu sem nefnd var í kvöldfréttum Stöðvar 2 í þessu samhengi vera úr lausu lofti gripna.

„Það er enginn tala komin á þetta ennþá,“ segir Jón. „Þau verkefni sem maður sér að brýnt sé að farið verði í ef möguleiki verður á viðbótarfjármögnun eru Teigsskógur, Berufjarðarbotn, Dettifossvegur, Hornafjarðarfljót, Skógarstrandarvegur fyrir vestan og Uxahryggjavegur. Þetta eru þau verkefni sem blasa við að eru næst á dagskrá.“ Jón bætir við að verkefnin fari þó ekki endilega á dagskrá í þessari röð.

„Þetta eru hins vegar verkefni sem væri bæði gott að geta byrjað á og að geta haldið áfram með.“

Heildarfjármögnun ofangreindra verkefna nemur mörgum milljörðum að sögn Jóns, sem segir að fáist viðbótarfjármögnun verði þó mögulega hægt að byrja á ákveðnum hlutum í þessum verkefnum.

„Við fjármálaráðherra munum reyna að fara yfir þetta í næstu viku og reyna þá að gera ríkisstjórninni grein fyrir einhverjum tillögum frá okkur,“ segir Jón og kveðst bjartsýnn að fjármagn finnist. „Ég ætla að leyfa mér að vona að það verði hægt. Það blasir við hvað þörfin er brýn og þó heilmikið hafi verið bætt í málaflokkinn á þessu ári, um 4,6 milljörðum króna, þá má betur ef duga skal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert